Fara í efni
Íþróttir

Skokkuðu Þorvaldsdal við krefjandi aðstæður

Þrír fyrstu karlar, frá vinstri: Arnar Ólafsson, 2. sæti (2:41:50); Sveinn Margeirsson, 1. sæti (2:17:08); Skúli Jóhannesson, 3. sæti (2:45:04).

Þorvaldsdalsskokkið fór fram í 31. sinn á laugardaginn við krefjandi aðstæður í samnefndum dal við vestanverðan Eyjafjörð. Sigurvegari annað árið í röð var Sveinn Margeirsson en fyrst kvenna, og önnur í heildina, var Guðfinna Kristín Björnsdóttir. 

Þoka huldi hæsta hluta leiðarinnar þar sem farið er yfir Háaleiti og um Kytru auk þess sem óvenju mikill snjór var á leiðinni. Aðstæður buðu því ekki upp á bætingu en engu að síður náðist þokkalegur árangur, að því er segir í tilkynningu frá skipuleggjendum hlaupsins.

Vegalengd Þorvaldsdalsskokksins er u.þ.b. 24 km en þar sem leiðaval hlaupara er frjálst getur munað nokkru á heildarvegalengd einstakra hlaupara.

Alls hófu 42 keppendur leik en 13 þeirra hlupu styttri vegalengdina, s.k. hálfan Þorvaldsdal. Fyrstur þeirra í mark var Arnór Tumi Jóhannsson og fyrsta kona var Ólöf Lovísa Jóhannsdóttir.

Öll úrslit í hlaupinu eru aðgengileg á timataka.net.

Þrjár fyrstu konur, frá vinstri: Hulda Elma Eysteinsdóttir, 2. sæti (2:48:51); Guðfinna Kristín Björnsdóttir, 1. sæti (2:30:15); Sandra Sigmundsdóttir, 3. sæti (3:05:33)

Þrír fyrstu karlar í hálfum Þorvaldsdal, frá vinstri: Heiðar Halldórsson, 2. sæti (1:35:48); Arnór Tumi Jóhannsson, 1. sæti (1:29:21); Pétur Valdimarsson, 3. sæti (1:39:32).

Þrjár fyrstu konur í hálfum Þorvaldsdal, frá vinstri: Eir Starradóttir, 2. sæti (1:57:46); Ólöf Lovísa Jóhannsdóttir, 1. sæti (1:48:12); Líney Elíasdóttir, 3. sæti (2:04:34).