Skíðakappar frá framandi slóðum
Óvenjulegt var um að litast á gönguskíðasvæðinu í Hlíðarfjalli í gærkvöldi. Ekkert er reyndar hversdagslegra en að þar færi fram mót í sprettgöngu í afbragðs færi og góðu veðri heldur hitt að hópur erlendra skíðamanna hafði skráð sig á mótið, sem er bikarmót og stendur alla helgina, flestir í þeirri von að safna stigum til að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum sem hefjast 4. febrúar í Beijing, höfuðborg Kína.
Það er í sjálfu sér ekki stórmerkilegt að erlendir keppendur mæti til leiks en að þessu sinni ætti altjent að vera óhætt að halda því fram að skíðamennska er ekki það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar upplýst er hvaðan sumir íþróttamennirnir eru.
Í gærkvöldi keppti einn karl frá Trinidad og Tobago í Karíbahafinu, annar frá Malasíu í Suðaustur-Asíu og tveir frá Mexíkó, og í kvennakeppninni var ein frá Mexíkó og önnur frá Indlandi. Allir keppa aftur í dag og þá bætast raunar fleiri við, í karlakeppninni verður meðal annars skíðamaður frá Sádí-Arabíu.
Þess má geta að Einar Árni Gíslason úr Skíðafélagi Akureyrar sigraði í karlaflokki í gærkvöldi og í kvennaflokki bar Birta María Vilhjálmsdóttir, einnig úr Skíðafélagi Akureyrar, sigur úr býtum.
Hluti útlendinganna í Hlíðarfjalli í gær, frá vinstri: Wei Yan Tang frá Malasíu, Nicholas Lau frá Trinidad og Tobago, Allan Corona frá Mexíkó, Antonio Pineyro frá Mexíkó og ónefndur Mexíkóbúi sem keppir ekki fyrr en í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Antonio Pineyro frá Mexíkó.
Allan Corona frá Mexíkó í eyfirska janúarmyrkrinu.