Fara í efni
Íþróttir

Fengu bronsverðlaun í Atskákkeppni taflfélaga

Sitjandi frá vinstri: Jóhann Hjartarson, Símon Þórhallsson og Mikael Jóhann Karlsson. Standandi: Markús Orri Óskarsson, til vinstri, og Björn Ívar Karlsson.

Sveit Skákfélags Akureyrar varð í 3. sæti og hlaut bronsverðlaun í Atskákkeppni taflfélaga sem lauk á þriðjudagskvöldið. Fjórtán sveitir voru skráðar til leiks og var sveit félagsins fyrirfram skráð sú sjötta í styrkleikaröðinni með tilliti til skákstiga liðsmanna.

Stórmeistarinn Jóhann Hjartarson sem gekk nýverið í Skákfélag Akureyrar tefldi nú í fyrsta sinn með félaginu eftir að hann snéri aftur en Jóhann var í félaginu um nokkurra ára skeið fyrir margt löngu. Endurkoma Jóhanns fór vel í liðsmenn sem tefldu af miklum krafti og náðu að lokum bronsinu, voru sjónarmun á undan skáksveit Breiðabliks. Taflfélag Reykjavíkur vann öruggan sigur og Fjölnismenn urðu í 2. sæti.
 
Fyrir Skákfélag Akureyrar tefldu á mótinu Jóhann Hjartarson, Björn Ívar Karlsson, Símon Þórhallsson, Mikael Jóhann Karlsson, Stefán Bergsson, Halldór Brynjar Halldórsson, Arnar Þorsteinsson og Markús Orri Óskarsson.
 
Silfur og brons
 
Helgina áður nældi Markús Orri sér í brons á Íslandsmóti ungmenna; varð í 3. sæti í flokki 16 ára og yngri. Fleiri fengu brons á því móti: Sigþór Árni Sigurgeirsson í flokki 14 ára og yngri og Nökkvi Már Valsson í flokki 10 ára og yngri. Þá gerði Harpa Hrafney Karlsdóttir sér lítið fyrir og  varð í 2. sæti og fékk því silfur í stúlknaflokki 12 ára og yngri.
 
Vert er að geta þess að Sigþór, Harpa og Nökkvi eru öll á yngra ári í sínum aldursflokki. Alls tóku átta keppendur frá Skákfélagi Akureyrar þátt á Íslandmótinu.
 
Formaðurinn gerði vel á Ítalíu
 
Áskell Örn Kárason, formaður Skákfélags Akureyrar og alþjóðlegur skákmeistari, tefldi nýlega á Evrópumóti 65 ára og eldri sem fram fór á Ítalíu. Tæplega 100 keppendur voru skráðir til leiks og var Áskell sá 38. stigahæsti. Hann fór vel af stað, hélt sínu striki allt mótið og endaði í 15. sæti með fimm og hálfan vinning í níu umferðum. Áskell hækkar um 35 stig fyrir árangurinn sem þykur nokkuð drjúgur fengur fyrir aðeins eitt mót og undirstrikar góðan árangur hans á mótinu.