Sjötta tapið í röð og KA enn stigi ofan við fallsæti
KA tapaði sjötta leiknum í röð í Olísdeildinni í handbolta þegar liðið mætti FH í Hafnarfirði í kvöld. Leikurinn var jafn nær allan tímann, staðan 14:14 í hálfleik og Hafnfirðingarnir unnu með aðeins eins marks mun, 28:27.
ÍR tapaði í kvöld fyrir Aftureldingu og staðan í botnbaráttunni er því óbreytt; KA er með 11 stig en ÍR 10, bæði eftir 20 leiki. Hörður er lang neðstur og fallinn úr efstu deild en ÍR er í efra fallsætinu.
Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 9 (4 víti), Ólafur Gústafsson 4, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Dagur Gautason 3, Gauti Gunnarsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Arnór Ísak Haddsson 1, Hilmar Bjarki Gíslason 1, Allan Norðberg 1.
Varin skot: Nicholas Satchwell 7 (35%), Bruno Bernat 7 (31,8%).
Tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni, KA og ÍR eiga þessa leiki eftir:
Miðvikudag 5. apríl:
KA – Fram
ÍR – FH
Mánudag 10. apríl:
Grótta – KA
Fram – ÍR
- Verði KA og ÍR jöfn að stigum standa KA-menn betur að vígi og ÍR fellur. Liðin mættust tvisvar í deildinni í vetur og unnu hvort sinn leik en KA er með mun betri markatölu úr innbyrðis leikjunum.
Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum í kvöld.
Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni