Fara í efni
Íþróttir

„Sjálfboðaliðinn“ er maður ársins hjá Þór

Frá Þrettándagleði Þórs fyrir nokkrum árum. Sú hátíð hefur verið fastur liður í starfsemi félagsins til áratuga en fer ekki fram að þessu sinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Forráðamenn Íþróttafélagsins Þórs hafa ákveðið, í ljósi aðstæðna, að velja ekki íþróttamann ársins hjá félaginu að þessu sinni, eins og hefð er fyrir. Þess í stað hefur sjálfboðaliðinn verið tilnefndur maður ársins hjá Þór.

„Við viljum með þessu vekja athygli á því mikla og fórnfúsa starfi sem sjálfboðaliðarnir okkar vinna á hverju ári, og sérstaklega á árinu 2020, þegar þurfti að glíma við nýjar og óvæntar aðstæður á hverjum degi. Þá kom virkilega í ljós styrkur félagsins og það mikla og óeigingjarna starf sem sjálfboðaliðarnir okkar vinna,“ segir í pistli frá aðalstjórn Þórs á heimasíðu félagsins.

„Það ástand sem við höfum þurft að glíma við, röskun á starfi, tilfærslur, frestanir, nýjar reglur, boð og bönn, hefur kostað mikla vinnu fyrir starfsfólk félagsins, stjórnir einstakra deilda og alla sjálfboðaliða sem starfa fyrir félagið og bera uppi daglega starfsemi. Á þessum tíma hefur komið í ljós betur en nokkru sinn fyrr hve starf sjálfboðaliðanna er mikilvægt. Þeir hafa ávallt verið tilbúnir að bregðast við, skipuleggja starfið upp á nýtt til að mæta nýjum aðstæðum og haldið vel utan um sitt fólk.

Það hefur vakið aðdáun okkar í aðalstjórn Þórs hvernig stjórnir deilda og aðrir sjálfboðaliðar hjá félaginu hafa tekið á málum og stýrt starfinu á þessum krefjandi og ófyrirséðu tímum.“

Nánar á heimasíðu Þórs