Silvía Rán verður spilandi þjálfari SA
Silvía Rán Björgvinsdóttir verður spilandi þjálfari kvennaliðs SA í íshokkí í vetur. SA-konur hefja leik í Hertz-deildinni þegar þær mæta liði Fjölnis í Skautahöllinni á Akureyri á laugardag.
Greint er frá ráðningu Silvíu Ránar á heimasíðu Skautafélags Akureyrar í morgun. Silvía Rán meiddist illa í leik með Hammarby IF í efstu deild í Svíþjóð í fyrravetur eins og greint var frá í frétt á Akureyri.net og er að snúa til baka á ísinn eftir þau meiðsli.
Silvía Rán, sem er fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, kemur inn í þjálfarateymi SA og mun stýra kvennaliði SA og U18 liðinu, tímabundið í það minnsta, eins og það er orðað í frétt SA. Það er mikill styrkur fyrir SA að fá Silvíu aftur heim, sérstaklega í ljósi þess að liðið hefur misst margar öflugar hokkíkonur frá síðustu leiktíð, eins og fram kom í frétt á Akureyri.net fyrir stuttu. Fjórar hafa haldið utan, tvær farnar í Fjölni og ein í SR.
Stefnir í jafnari deild en áður
Íshokkíunnendur fagna heimkomu Silvíu Ránar „enda gríðarleg flink og skemmtilegur leikmaður á að horfa og nú sérstklega þegar útlit er fyrir að Hertz-deild kvenna verði sú mest spennandi í áraraðir,“ eins og segir á vef félagsins.
Í frétt félagsins segir meðal annars:
Silvía er 24 ára sóknarmaður og hefur verið ein allra besta íshokkíkona sem Íslands síðustu ár en hún kemur frá Hammarby IF í Svíþjóð þar sem hún spilaði í HockeyAllsvenskunni síðasta tímabil. Silvía er uppalin hjá Skautafélagi Akureyrar og spilaði með SA fram til ársins 2019 og var yfirburðarleikmaður í deildinni á þeim tíma en hún skoraði til að mynda á einu tímabilinu með SA 31 mark og átti 30 stoðsendingar í 12 leikjum. Silvía fór frá SA til Södertalje SK í Svíþjóð þar sem hún hélt áfram uppteknum hætti og skoraði 33 mörk í 25 leikjum á sínu fyrsta tímabili erlendis. Þaðan fór Silvía til Norwich University í NCAA III háskóladeildina í Bandaríkjunum og árið eftir til Göteborg HC í Svíþjóð og varð þá fyrsti íslenski íshokkí leikmaðurinn sem spilar í einni sterkustu deild heims.
Í viðtali við SAsport segir Silvía að hún hafi byrjaði að hugsa um að koma heim til Íslands eftir að hún meiddist illa ljóst varð að hún myndi missa bæði af úrslitakeppninni í Svíþjóð og heimsmeistaramótinu með kvennalandsliði Íslands. Þegar hún frétti svo af áhuga SA um að semja við hana og fá hana inn í þjálfunina varð hún viss um að þetta væri rétta skrefið. „Ég er virkilega spennt fyrir því að koma núna til þess að miðla minni reynslu og þekkingu og þá sérstaklega til að styðja ungu stelpurnar sem eru núna að fá stærri hlutverk og hjálpa þeim að þróa sig og ná sínum markmiðum. Mig langar lika að að setjafordæmi og sýna hvernig er hægt að ná lengra og hækka standardin á því hvernig við æfum. Ef ég get svo hjálpað liðinu að vinna leiki og keppa um titla það er þá bara bónus ofan á allt hitt.“
Akureyri.net mun fjalla nánar um breytingar á liðum SA á næstu dögum. Kvennalið SA hefur leik á Íslandsmótinu með heimaleik laugardaginn 2. september, en karlaliðið hefur leik laugardaginn 16. september þegar Íslandsmeistarar SR koma norður.