Fara í efni
Íþróttir

Silvía Rán sú fyrsta í sænsku A-deildina

Silvía Rán fagnar marki í leik með SA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íshokkíkonan snjalla Silvía Rán Björgvinsdóttir hefur samið við lið Göteborg HC sem leikur í efstu deild í Svíþjóð, einni sterkustu deild í heimi. Hún verður fyrsti Íslendingurinn sem leikur í deildinni, en fetar í fótspor Diljár Sifjar, systur sinnar, að því leyti að Diljá var á mála hjá Gautaborgarliðinu á sínum tíma. Þá lék það hins vegar í næst efstu deild. Það var mbl.is sem greindi fyrst frá.

Silvía er 22 ára. Hún var í vetur við nám í Bandaríkjunum, í Norwich University í Vermont, og lék með skólaliðinu. Hún fór utan í ágúst en vegna kórónaveirufaraldursins hófst keppni ekki fyrr en í mars. Liðið spilaði þá nokkra leiki og Silvía stóð sig afar vel.

Fram kemur á heimasíðu Gautaborgarliðsins að fulltrúar þess hafi fylgst náið með Silvíu síðustu ár og séu þess fullvissir um að hún eigi eftir að koma mörgum markvörðum í sænsku dieldinni á óvart í vetur. 

Heimasíða Göteborg HC