Fara í efni
Íþróttir

Silvía Rán með fimm mörk í fyrsta leik

Leikmenn SA þakka stuðninginn að loknum sigrinum á Fjölni í dag.

Kvennalið SA vann nauman en engu að síður nokkuð öruggan sigur á Fjölni í fyrstu umferð Hertz-deildarinnar í íshokkí þegar liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri í dag. Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði öll mörk SA í fyrsta leik sínum eftir alvarleg meiðsli fyrr á árinu.

Þegar Akureyri.net leitaði eftir því fyrir stuttu að fá upplýsingar um leikmannahópinn sem SA teflir fram í Hertz-deild kvenna í íshokkíinu í vetur var því laumað að blaðamanni að von væri á stóru nafni úr sænsku deildinni. Þegar svo blaðamaður beið eftir tilkynningu um erlendan leikmann – eftir að Silvía Rán Björgvinsdóttir hafði ákveðið að spila með SA – var honum einfaldlega bent á að stóra nafnið væri Silvía Rán. Silvía Rán sýndi með frammistöðu sinni í dag þessi orð voru ekki að ástæðulausu því hún skoraði öll mörk SA í 5-4 sigri á Fjölni.

  • Úrslitin: SA - Fjölnir 5-4 (2-0, 1-1, 2-3)
  • SA
    Mörk/stoðsendingar: Silvía Rán Björgvinsdóttir 5/0, Amanda Bjarnadóttir 0/1, Sólrún Assa Arnardóttir 0/1, Eva Karvelsdóttir 0/1.
    Varin skot: 31 (88,57%).
    Refsingar: 0
  • Fjölnir
    Mörk/stoðsendingar: Sigrún Árnadóttir 2/0, Teresa Snorradóttir 1/1, Laura Murphy 1/0, Berglind Leifsdóttir 0/2.
    Varin skot: 17 (77,27%).
    Refsingar: 4 mínútur.

SA hafði frumkvæðið og skoraði tvö mörk í fyrsta leikhluta. Þegar gestirnir minnkuðu muninn í 2-1 svöruðu SA-konur um hæl. Staðan 3-1 eftir annan leikhluta. SA komst svo í 4-1 og 5-2, en gestirnir náðu af harðfylgi að minnka muninn í eitt mark rúmri mínútu fyrir leikslok. Vörnin hjá SA stóð vaktina vel á lokamínútunni og sá til þess að gestirnir næðu ekki að ógna að ráði til að ná inn jöfnunarmarki.

  • 1-0 - Silvía Rán Björgvinsdóttir (04:52). Stoðsending: Amanda Bjarnadóttir.
  • 2-0 - Silvía Rán Björgvinsdóttir (17:05). Stoðsending: Sólrún Assa Árnadóttir.
  • 2-1 - Laura Murphy (37:06). Stoðsending: Berglind Leifsdóttir.
  • 3-1 - Silvía Rán Björgvinsdóttir (38:58)
  • 4-1 - Silvía Rán Björgvinsdóttir (48:33)
  • 4-2 - Teresa Snorradóttir (51:56).
  • 5-2 - Silvía Rán Björgvinsdóttir (52:22). Stoðsending: Eva Karvelsdóttir.
  • 5-3 - Sigrún Árnadóttir (53:31). Stoðsending: Teresa Snorradóttir.
  • 5-4 - Sigrún Árnadóttir (58:49). Stoðsending: Berglind Leifsdóttir.

„Skemmtilegast í heimi!“

Silvía Rán sagði í samtali við Akureyri.net í leiksklok að hún hafi ákveðið að semja við SA og spila hér á landi í vetur til að komast aftur af stað eftir meiðslin. „Ég er ennþá að koma hnénu í lag. Hérna er leikjaálagið minna, þótt það séu hörkuleikir. Það eru bara ekki jafn margir og úti. Svo er líka gott að vera komin í gamla góða umhverfið sitt,“ sagði Silvía Rán.

Henni líður vel að vera komin aftur á ísinn. „Það er geggjað. Þetta er það skemmtilegasta í heimi, það er comeback-season. Þetta á bara eftir að verða betra.“ Hún var líka fljót að svara játandi þegar hún var spurð hvort hún væri tilbúin í landsliðið líka í vetur. „Já, ég vona það, nema eitthvað komi upp á.“

Tólf ára í markinu

Tölurnar segja kannski ekki að sigurinn hafi verið öruggur, en SA-konur höfðu þó lengst af góð tök á leiknum. Kornungur markvörður SA, Marey Viðja Sigurðardóttir, fædd í október 2010 og því ekki orðin 13 ára, stóð vel fyrir sínu í markinu og varði 31 skot.

Eins og áður hefur komið fram teflir SA fram mörgum ungum leikmönnum í vetur eftir eftir að hafa misst sjö landsliðskonur til annarra liða á Íslandi, í Danmörku og Svíþjóð. Til að mynda eru 14 af 22 í hópnum fæddar 2005 og síðar, auk þess sem hin 12 ára Marey Viðja kom inn í markið í fjarveru Shawlee Gaudreault og Anítu Óskar Sævarsdóttur.

Silvía Rán nýtur þess að æfa með og kenna ungu leikmönnunum og segir liðið bara eiga eftir að verða betra. „Við erum með svo margar ungar stelpur. Bara frá því að ég byrjaði með þeim fyrir um þremur vikum hafa þær tekið tíu skref fram á við og ég sé bara bætingu á hverjum einasta degi. Þær eru svo tilbúnar að læra og tilbúnar að tileinka sér hluti og verða betri. Það er bara geggjað að sjá það,“ sagði Silvía Rán Björgvinsdóttir, spilandi þjálfari SA eftir góðan sigur í fyrsta leik tímabilsins.