Fara í efni
Íþróttir

Silja varð Íslandsmeistari í götuhjólreiðum

Þrjár fyrstu á Íslandsmótinu, frá vinstri: Hafdís Sigurðardóttir, sem varð önnur, Íslandsmeistarinn Silja Jóhannesdóttir og Elín Björg Björnsdóttir, sem lenti í þriðja sæti.

Silja Jóhannesdóttir varð Íslandsmeistari í götuhjólreiðum í gær og Hafdís Sigurðardóttir varð í öðru sæti. Báðar keppa þær fyrir Hjólreiðafélag Akureyrar. Íslandsmótið var haldið á Þingvöllum, konurnar hjóluðu 117 kílómetra og keppnin var gríðarlega jöfn. Silja og Hafdís komu nánast hnífjafnar í mark; Silja hjólaði vegalengdina á 3 klukkustundum, 30 mínútum og 7,81 sekúndu en Hafdís á 3:30:08,12! Endaspretturinn var því æsispennandi eins og nærri má geta.

Elín Björg Björnsdóttir, hjólreiðafélaginu Tindi, varð í þriðja sæti og Ágústa Edda Björnsdóttir, Íslandsmeistari margra síðustu ára, sem einnig keppir fyrir Tind, varð í fjórða sæti.