Sigurmark á síðustu sekúndu og KA í úrslit!
KA leikur til úrslita í bikarkeppninni í handbolta á laugardaginn! KA-menn sigruðu Selfyssinga með eins marks mun í stórskemmtilegum leik í kvöld, 28:27, eftir framlengingu. Það var hornamaðurinn Arnar Freyr Ársælsson sem gerði sigurmarkið úr vinstra horninu þegar ein sekúnda var eftir af framlengingunni!
KA mætir Val á laugardaginn en Valsmenn hreinlega slátruðu FH-ingum í fyrri undanúrslitaleik kvöldsins, 37:27, með stórbrotinni frammistöðu í seinni hálfleik. Aðeins munaði tveimur mörkum á liðunum í hálfleik.
Leikur KA og Selfoss var sannarlega annars eðlis en sá fyrri, eins og reiknað var með; 64 mörk voru gerð í viðureign Vals og FH en að hefðbundnum 60 mínútum í viðureign KA og Selfoss var búið að skora 46 mörk; staðan 23:23. Sú staða var reyndar með ólíkindum því þegar sjö mínútur voru eftir virtust KA-menn öruggir í úrslit, en Selfyssingar breyttu sóknarleiknum og gerðu fimm síðustu mörkin!
Staðan í hálfleik var 11:11 sem var einnig ótrúlegt miðað við að Satchwell markvörður KA hafði þá varið ein 10 skot en Selfyssingurinn Vilius Rasimas eitt – já, eitt skot. KA-menn nýttu sér það ekki heldur misstu boltann alltof oft, hefðu með eðlilegri frammistöðu í sókn getað verið nokkrum mörkum yfir í hálfleik.
Sama baráttan hélt áfram í seinni hálfleik en smám saman skriðu KA-menn fram úr og voru með pálmann í höndunum þegar langt var liðið á leikinn, sem dugði þó ekki til í venjulegum leiktíma, sem fyrr segir.
Selfyssingar komust átta sinnum yfir í leiknum, 1:0, 3:2, 4:3, 5:4, 6:5, 7:6 og 8:7, þegar 23 mínútunar voru liðnar, og síðan ekki fyrr en 27:26, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af seinni hálfleik framlengingarinnar. Gamli KA-maðurinn Guðmundur Hólmar Helgason skoraði þá úr víti. Það var svo Óðinn Þór Ríkharðsson – sem var stórkostlegur í leiknum – sem jafnaði úr mjög þröngu færi þegar ein mínúta og fimm sekúndur voru eftir, vörn KA dró úr síðasta skoti Guðmundar Hólmars hinum megin svo Satchwell átti auðvelt með að verja, þegar 20 sek. voru eftir og Arnar Freyr sem setti punktinn yfir i-ið í þessum magnaða handboltaleik. Skoraði úr horninu eftir sendingu Arnórs Ísaks Haddssonar, þegar ein sekúnda var eftir.
Óðinn Þór Ríkharðsson var frábær í sókninni hjá KA sem fyrr segir, gerði 12 mörk úr 13 skotum, þar af fimm víti, og markvörðurinn Nicholas Satchwell fór einnig á kostum. Þeir skiptu sköpum í dag, auk þess sem öflugur varnarleikur var gríðarlega mikilvægur að vanda.
Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.