Sigurður Jökull frá Þór til Midtjylland
Danska meistaraliðið FC Midtjylland og knattspyrnudeild Þórs hafa komist að samkomulagi um að Þórsarinn Sigurður Jökull Ingvason gangi til liðs við danska félagið. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt er á heimasíðu Þórs í dag.
Sigurður er annar ungi Þórsarinn sem semur við Midtjylland á skömmum tíma. Egill Orri Arnarsson, jafnaldri Sigurður Jökuls, gekk til liðs við félagið í síðasta mánuði. Midtjylland er ríkjandi Danmerkurmeistari fótbolta.
Sigurður hélt utan til Danmerkur í gær ásamt fjölskyldu sinni og undirritaði sinn fyrsta atvinnumannasamning eftir að hafa gengist undir læknisskoðun.
Frábær staður fyrir Sigga
Sigurður er 16 ára gamall markvörður, fæddur árið 2008 og hefur farið upp í gegnum alla yngri flokka Þórs. Sigurður, eða Siggi eins og hann er jafnan kallaður, lék sinn síðasta leik fyrir Þór, í bili í það minnsta, síðastliðinn fimmtudag þegar hann stóð á milli stanganna í 4:1 sigri 2. flokks gegn Fjölni í Reykjavík en Siggi hefur spilað með 2. og 3.flokki í sumar eftir að hafa skrifað undir sinn fyrsta samning við Þór síðastliðið haust.
„Næst á dagskrá hjá Sigga er hins vegar landsliðsverkefni með U17 þar sem hann er ásamt þremur öðrum Þórsurum hluti af íslenska U17 ára landsliðinu sem tekur þátt í móti í Ungverjalandi í næstu viku. Eftir mótið mun Siggi flytja til Danmerkur en þar hittir hann fyrir annan Þórsara, jafnaldra sinn Egil Orra Arnarsson sem gekk til liðs við Midtjylland í síðasta mánuði,“ segir í tilkynningunni.
„Við erum virkilega ánægðir að sjá Sigga fá tækifæri til að taka þetta skref núna og hlökkum til að fylgjast með hans framþróun í Danmörku. Við teljum að Midtjylland sé frábær staður fyrir Sigga til að halda áfram að taka framförum sem efnilegur markvörður,“ segir Arnar Geir Halldórsson, yfirþjálfari Þórs.
Viðurkenning á starfi Þórs
„Siggi hefur alla tíð lagt hart að sér við æfingar og er vel að þessu kominn. Um leið lítum við á þetta sem ákveðna viðurkenningu á okkar starfi þegar kemur að markvarðaþjálfun í yngri flokkum Þórs sem við höfum lagt aukna áherslu á, á undanförnum árum.“
Midtjylland er ríkjandi Danmerkurmeistari fótbolta og „hefur á undanförnum áratug stimplað sig hressilega inn sem eitt stærsta fótboltaliðið í Danmörku en Midtjylland hefur fjórum sinnum orðið danskur meistari á síðustu 10 árum. Félagið leggur mikið upp úr unglingastarfinu sínu sem þykir með því öflugasta í Danmörku um þessar mundir,“ segir í tilkynningu Þórs.
Þess má til gamans geta að aðalmarkvörður Midtjylland í dag er íslenski A-landsliðsmaðurinn Elías Rafn Ólafsson
„Við óskum Sigga til hamingju með þetta flotta skref og hlökkum til að fylgjast með honum vaxa og dafna í Danmörku.“