Sigmundur Ernir: FYRIR LEIK
Sigmundur Ernir Rúnarsson sjónvarpsmaður og rithöfundur til áratuga er mikill KA-maður. Hann varð við þeirri beiðni Akureyri.net að skrifa tvo pistla í tilefni bikarúrslitaleiks KA og Víkings á Laugardalsvelli á morgun. Fyrri grein Sigmundar birtist nú en hin síðari að leik loknum.
_ _ _
Halda. Þetta er kunnugleg sögn. Að halda. Gott ef sagnorðið at arna er ekki bara notalegt. En það missir að vísu marks í einni merkingu.
Og er bara of veiklulegt í því tilviki.
Að halda með KA hefur nefnilega ekkert með þá merkingu að gera að halda nokkurn skapaðan hlut. Að vera KA-maður er nefnilega vissa. Maður heldur ekkert að persóna manns sé KA-megin í lífinu. Maður stendur klár á því. Efast aldrei.
Jafnvel þótt liðið myndi einhvern tíma tapa 14:2. Býttar engu.
Vissan myndi ekkert minnka.
Þess vegna veit ég upp á hár hvar hjarta mitt slær þegar flautað verður til leiks á Laugardalsvelli síðdegis á laugardeginum 16. september 2023. Og það er vegna þess að sá hjartsláttur er meðfæddur, allt frá því snáðinn rak upp sitt fyrsta öskur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri upp úr miðri síðustu öld, nítján marka sveinbarnið.
Og þar gæti ljósmóðirin hafa sagt við Helgu móður mína af mildi sinni og sannfæringu: „Til hamingju, þér hefur fæðst pattaralegur KA-drengur. Þú skalt reifa hann gulum og bláum klæðum til allrar ævilengdar.“
_ _ _
En þannig er endurminningin. Í öllum aðalatriðum taldist það vera til höfuðkosta manns að vera KA-maður. Í því var persónuleikinn veginn og mældur. Sú vitneskja að vera Brekkusnigill, eða Akureyringur var veigaminna. Hvað þá að teljast vera Eyfirðingur eða Norðlendingur. Það bara vigtaði ekki í nokkrum samanburði við þá sannfæringu að vera gulur og blár.
Gilti einu þótt örlögin höguðu því þannig að ég gæti lítið sem ekkert í fótbolta. Man þó að ég komst í liðið. Með Bessa, Bubba, Gassa, Fidda, Kobba Bjarna, Gunna Berg og Þorsteins, svo og Einari Eyland og öllum þessum borinbröttu guttum sem urðu Akureyrarmeistarar á ellefta ári. 1972, ef ég man rétt. Og þótt ekki væri til að dreifa nema einum andstæðingi á vellinum, skipað einhverjum æringjum utan úr Þorpi eða andstuttum eyrarpúkum, þá vorum við meistarar engu að síður. Akureyrarmeistarar. Og það er stórt orð.
Man að ég var í marki. Þótti skástur þar. Sennilega handleggjalengstur af okkur skrattakollunum úr sunnanverðum Innbænum og Brekkunni af því að slátrið heima var til helminga mör og blóð. Sumsé feitara en andskotinn. En hafði samt misst stöðu mína sem hægri vængmaður þegar þarna var komið sögu. Átti það nefnilega til að misreikna sendingarnar fyrir markið.
Af ástæðum sem voru ekki mér að kenna.
En það var af því að Glerárgata hafði verið tvöfölduð. Illu heilli fyrir mig. Og er í reyndinni þau ósköp sem gerðu út af við mig sem útileikmann.
Þeir skáru nefnilega annað hægra hornið af gamla melavellinum austan við aðalleikvang bæjarins. Bansettans bæjarstarfsmennirnir. Það varð að fórna helsta sendingarsvæðinu mínu, norðaustanvert á vellinum, fyrir tímans þunga umferðarnið sem var farinn að taka á sig stórbæjarmynd um þetta leyti síðustu aldar.
Með þessum breytingum varð gamli malarvöllurinn – sjálfur æfingavettvangur æsku minnar – að öllum líkindum eina íþróttaaðstaða sinnar tegundar í heiminum.
Ekki ferhyrnd. Heldur fimmhyrnd.
_ _ _
Og slík voru örlög mín.
Ég var rændur upphlaupskantinum, að minnsta kosti öðru megin á vellinum. Og þurfti að venjast nýjum og næsta fáránlegum aðstæðum. Altso að hemja hlaupið upp úr miðbiki vallarins. Og taka tillit til afskurðarins. Senda einmitt boltann áður en ég væri – í öllu óðagotinu – kominn út fyrir hann í sinni breyttu mynd.
Ég náði mér aldrei á strik eftir þetta.
Ekki sem útileikmaður.
Og var því sendur í markið.
Stundum raunar sem varamarkvörðurinn – eftir að hendurnar á mér hættu að vaxa – og var þá orðinn að svokölluðum boltasæki aftan við stangirnar.
Neðar komst maður ekki í liðinu.
Hafði ekki einu sinni stöðu á fimmhyrndum fótboltavelli.
_ _ _
En það breytir ekki því að fæddur og uppalinn KA-maður veit hvernig hann er á litinn. Alla ævi. Hann heldur það ekki neitt. Hann veit það. Finnur það á eigin skinni – og ekki síst í öllum þessum ósjálfráðu hreyfingum sem fær mann til að haga sér eins og fáráðlingur þegar leikar standa hæst.
Og einhver æruminnkandi afneitun eða svo að segja niðurlægjandi afturrekstur úr uppeldisboltanum breytir þar ekki nokkru máli. Það er svo auðveldlega fyrirgefið.
Ég mun eftir sem áður öskra á mig gat á vellinum um helgina. Með tvo af þremur sonum mínum við hliðina. Sem eru líka KA-menn. Annað væri það nú. Þótt þeir búi í Hafnarfirði og Vesturbænum. Og líka sá þriðji. Þótt hann búi í Stokkhólmi. Og fylgist með leiknum úr símanum okkar hinna í stúkunni. Og æpi líka áfram KA af svölunum heima á Hammerby allé. Jafn kolklikkaður til augnanna og við hinir heima í Laugardalnum. Svíunum í kring til stórrar undrunar.
Því svona er þetta.
Og hefur ekkert með það að gera að halda einhvern skapaðan hlut. Þetta er vissa. Sannfæring. En líka trú, von og kærleikur.
Í seinni tíð líka vottur af æðruleysi og virðingu fyrir hinu liðinu. Það heitir ábyggilega þroski. Eða kannski er maður bara að eldast. Líklega.
Sem breytir þó ekki því – og ugglaust aldrei – að enn fær ekkert mig til að brosa meira og betur – og eftir atvikum, að haga mér eins og himpingimpi – en þegar andstæðingurinn tapar.
Og einmitt, þegar KA vinnur.
(Sjá næstu grein á sunnudagsmorgun: EFTIR LEIK)
Sigmundur Ernir Rúnarsson er KA-maður