Síðasti heimaleikur Þórsliðsins í vetur
Fjórði leikur Þórs og Stjörnunnar í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í körfubolta verður í Íþróttahöllinni í dag, laugardag kl. 16.00.
Bæði lið hafa tryggt sér sæti í efstu deild næsta vetur en berjast um sigur í deildinni. Stjarnan hefur unnið tvo leiki, báða á heimavelli, en Þórsarar unnu fyrri leik liðanna í Höllinni. Þrjá sigra þarf til að næla í gullið þannig að með sigri í dag klárast rimman. Vinni Þórsarar hins vegar í dag mætast liðin í fimmta og síðasta sinn í Garðabæ.
Sama hvernig fer í dag verður leikurinn því sá síðasti hjá stelpunum á heimavelli í vetur og ástæða til þess að hvetja Þórsara til að fjölmenna og hvetja þær til dáða.
Á heimasíðu Þórs segir:
Mætum í rauðu og hvítu og verum ekki spör á hvatningarhrópin, látum sönginn hljóma.
Í hálfleik verða seldir grillaðir hamborgarar, borgari og drykkur á 1.500 krónur og miðaverð á leikinn er 2000 krónur en frítt fyrir 16 ára og yngri.
Fyrir þá sem ekki komast á leikinn þá verður hann í beinu streymi á Þór TV https://www.livey.events/thortv en ekkert jafnast á við það að vera á staðnum.