Fara í efni
Íþróttir

Shawlee og Jóhann Már mikilvægust í hokkíinu

Verðlaunahafar meistaraflokka SA í íshokkí. Jóhann Már Leifsson, Ingvar Þór Jónsson, Amanda Ýr Bjarnadóttir, Ranheiður Alís Ragnarsdóttir og Shawlee Gaudreault. Á myndina vantar Ágúst Mána Ágústsson. Myndir: sasport.is.

Markvörður kvennaliðs SA í íshokkí, Shawlee Gaudreault, og Jóhann Már Leifsson, einn af fyrirliðum karlaliðsins, voru valin mikilvægustu leikmenn meistaraflokksliða SA á árshátíð hokkídeildarinnar fyrr í mánuðinum. 

Shawlee var með besta markvörsluhlutfallið í Hertz-deild kvenna. Hún fékk á sig 320 skot og aðeins 16 mörk, varði 304 skot, eða 95% þeirra skota sem hún fékk á sig. Hjá kvennaliðinu voru verðlaunaðar, auk Shawlee, þær Ragnheiður Alís Ragnarsdóttir fyrir mestu framfarirnar og Amanda Ýr Bjarnadóttir sem besta fyrirmyndin.

Jóhann Már var næststigahæstur með 34 stig í Hertz-deild karla, það er samanlögð mörk og stoðsendingar. Hann skoraði níu mörk og átti 25 stoðsendingar í 23 leikjum. Hann var tíundi í röð markaskorara, en efstu á lista leikmanna yfir fjölda stoðsendinga. Auk Jóhanns var Ágúst Máni Ágústsson verðlaunaður fyrir mestu framfarir og Ingvar Þór Jónsson sem besta fyrirmyndin. 

Auk viðurkenninga í meistaraflokki voru veittar viðurkenningar í yngri flokkum hokkídeildar, sjá nánar í frétt á vef Skautafélagsins.