Selfyssingar unnu Þór/KA í Boganum
Þór/KA tapaði fyrsta heimaleik sumarsins í efstu deild Íslandsmótsins í fótbolta, Pepsi Max deildinni, þegar Selfyssingar komu í heimsókn í dag. Gestirnir unnu 2:0. Leikið var í Boganum þar sem Þórsvöllurinn er ekki tilbúinn.
Þór/KA sigraði ÍBV 2:1 í Eyjum í fyrstu umferðinni svo tapið í dag eru mikil vonbrigði en það verður að viðurkennast að sigur gestanna var sanngjarn. Stelpurnar okkar byrjuðu ágætlega í dag en ógnuðu marki gestanna ekki verulega; komust nokkrum sinnum í vænlegar sóknarstöður en náðu aldrei að binda endahnútinn á þær aðgerðir. Þær náðu þó að halda boltanum vel á köflum í dag, einkum í fyrri hálfleik, en það dugði ekki til.
Það var Brenna Lovera sem braut ísinn með stórglæsilegu marki og staðan var 1:0 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn einkenndist af mikilli baráttu. Leikmenn Þórs/KA náðu þó ekki að töfra fram sínar bestu hliðar og Caity Heap gerði seinna mark Selfyssinga um miðjan hálfleikinn með frábæru skoti af löngu færi eftir mistök í vörn heimamanna.
Ljóst er að lið Þórs/KA á að geta spilað mun betur. Margar ungar og bráðefnilegar stelpur eru í hópnum og spennandi verður að sjá til liðsins eftir að erlendu leikmennirnir verða komnir á fullan skrið, fyrirliðinn Arna Sif Ásgrímsdóttir komin aftur í hópinn og framherjinn Margrét Árnadóttir hefur náð sér af meiðslum.
Næsti leikur Þórs/KA er gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í Kópavogi á laugardaginn. Blikarnir burstuðu Fylki í fyrstu umferðinni en töpuðu óvænt í Vestmannaeyjum í gærkvöldi.
Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.
Hulda Ósk Jónsdóttir umkringd Selfyssingum í Boganum í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.