Íþróttir
Segir Aron Einar valinn í landsliðshópinn á ný
16.09.2022 kl. 10:12
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu um árabil, er í landsliðshópnum fyrir komandi landsleikjaglugga. Þetta herma heimildir mbl.is en landsliðshópurinn verður tilkynntur í dag.
Aron lék síðast fyrir Ísland í júní 2021, vináttulandsleik gegn Póllandi í Poznan. Ríkissaksóknari felldi á dögunum endanlega niður mál gegn Aroni Einari og Eggert Gunnþóri Jónssyni en á síðasta ári lagði kona fram kæru gegn þeim vegna kynferðisbrots eftir landsleik í Kaupmannahöfn árið 2010.
Ísland mætir Venesúela í vináttulandsleik 22. september og Albaníu í 2. riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar í Tirana í Albaníu 27. september.