KA að stimpla sig út úr toppbaráttunni?
KA tapaði 2:1 fyrir Fylki í Árbænum í kvöld í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði fyrir KA snemma í seinni hálfleik eftir að heimamenn voru komnir í 2:0.
Uppfært frá fyrstu birtingu
Mikill kraftur var í Fylkismönnum til að byrja með enda var liðið í heldur erfiðri stöðu í neðri hlutanum og stigin dýrmæt. Vitaskuld þarf ekki að taka fram að þau eru KA-mönnum jafn mikilvæg því þeir gátu komið sér í býsna góða stöðu í efri hlutanum og því var undarlegt hve daufir þeir virkuðu framan af.
Hallgrímur Mar Steingrímsson, sem gerði mark KA, orðaði það svona við mbl.is: „Mér fannst við lélegir, það var enginn kraftur í okkur og við unnum ekki nógu vel til baka.“ Hann benti á að Fylkismenn fengu allt of oft að halda í skyndisóknir, og hefðu hæglega getað bætt við mörkum. „Ég skil ekki hvernig við getum mætt svona til leiks þegar það er svona mikið undir,“ sagði Hallgrímur Mar við mbl.is - hér má lesa meira.
Það verður að segjast eins og er að varnarleikur KA manna sem hóps var afar slakur þegar Orri Sveinn Stefánsson kom Fylki yfir á 31. mín. og hætta skapaðist óvenju oft við KA-markið í kvöld.
Gestirnir voru mun meira með boltann langtímum saman og Fylkismenn voru ekki ósáttir við það eftir að þeir voru komnir yfir. Þeir vörðust vel og beittu stórhættulegum skyndisóknum, og í einni slíkri skoraði Orri Hrafn Kjartansson með skoti yst úr vítateignum eftir að hafa farið illa með varnarmanninn Dusan Brkovic. Ekki er þó hægt að kenna honum einum um markið því Brkovic var berskjaldaður eftir að félagar hans töpuðu boltanum klaufalega.
Hallgrímur Mar gerði eina mark KA fjótlega eftir að Fylkir komst í 2:0. Skot hans utan vítateigs fór í varnarmann, skrúfaðist upp í loftið og sveif yfir markmanninn í netið.
Þegar upp er staðið er blóðugt fyrir KA-menn að fara tómhentir úr Árbænum því undir lokin fengu þeir tvö góð færi til að skora en boltinn small í stöng í bæði skiptin; fyrst eftir skalla Hallgríms Mar og svo eftir skot Sebastian Brebels á lokasekúndunum. Í heildina var frammistaða liðsins þó ekki nógu góð og mikil vonbrigði hve fá stig hafa komið í sarpinn undanfarið. Eftir góða byrjun hefur hallað undan fæti, en þó ber þess að geta að baráttan er jöfn og staðan getur verið fljót að breytast. Dæmi um það er að Fylkir er kominn upp í miðja eftir sigurinn í kvöld. Töp KA á Dalvík gegn Víkingi, Val og KR svíða hins vegar, vegna þess að liðið átti í raun ekki skilið að tapa þeim leikjum, og stigin níu sem runnu KA-mönnum úr greipum munu reynast dýrkeypt í baráttunni.
„Við erum svolítið að stimpla okkur út úr þessari toppbaráttu finnst mér, með því að tapa þessum leik,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA, vonsvikinn við fotbolti.net í kvöld. Hann segir meira búa í liðinu en það hafi sýnt og eftir gott gengi framan af móti hafi frammistaðan undanfarið náð mönnum rækilega niður á jörðina. Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Arnar.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna