Fara í efni
Íþróttir

Sárkvalinn glímukóngur beint á sjúkrahús

Kóngurinn kveður! Sjúkraflutningamenn fara með Einar Eyþórsson úr íþróttahúsi Glerárskóla í gær. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Einar Eyþórsson, sem varð glímukóngur Íslands í fyrsta skipti í gær, lauk keppni sárþjáður eftir að hann meiddist illa á fæti. Mývetningurinn, sem tók þátt í Íslandsglímunni í 11. skipti, sagði Akureyri.net eftir sigurinn að hann að hann hefði dreymt um það í 22 ár – síðan hann varð sex ára – að verða glímukóngur og fá Grettisbeltið.

Jafnglími varð þegar Einar og Hákon Gunnarsson mættust í síðustu umferð mótsins og þeir urðu jafnir að stigum. Því þurftu kapparnir að eigast við aftur; glímdu þá til þrautar.

Í fyrri glímunni meiddist Einar og var greinilega mjög kvalinn. „Það losnaði brjósk á milli beinanna í ristinni,“ sagði hann á eftir. Einar harkaði af sér en í seinni glímunni versnaði ástandið enn. Hann kvaðst nokkuð viss um 2 eða 3 brjósk hefðu losnað í fyrri glímunni „en restin fór örugglega í þeirri seinni.“

Þegar Akureyri.net ræddi við glímukónginn eftir verðlaunaafhendinguna birtust tveir sjúkraflutningamenn í salnum og þar með lauk spjallinu! Eftir stutta skoðun var farið með Einar rakleiðis á sjúkrahús. 

Einar var mjög kvalinn í síðustu glímunni og var því án efa feginn stuttri bið á meðan dómararnir réðu ráðum sínum.

Glaður en kvalinn; Einar eftir að sigurinn var í höfn.