Fara í efni
Íþróttir

Sandra María ólétt og spilar ekki meira í ár

Sandra María Jessen, landsliðskona og leikmaður Bayer Leverkusen í Þýskalandi.

Sandra María Jessen, landsliðskona í fótbolta og leikmaður Bayer Leverkusen í Þýskalandi, er ólétt og leikur því ekki meira á þessu ári. Hún á að eiga í lok ágúst og hyggst fæða í Þýskalandi. Það verður fyrsta barn hennar.

Kærasti Söndru er þýskur, býr í Wuppertal og þau fá íbúð saman þar í borg í næsta mánuði. Aðeins eru um 45 kílómetrar frá Wuppertal til Leverkusen

„Eins og staðan er núna þá má ég ekki taka þátt í æfingum með liðinu, fæðingarlæknirinn minn bannaði það,“ sagði Sandra við Akureyri.net í dag. „Ég mæti samt á margar æfingar og geri miðlungsþungar styrktar- og úthaldsæfingar. Svo eru gerð Covid test á öllum í liðinu tvisvar í viku þannig að þá þarf ég að vera á staðnum.“

Sandra hefur ekki spilað síðan í desember. „Ég var með í síðasta leiknum fyrir jólafrí. Meiddi mig svo á ökkla á síðustu æfingu fyrir jól og það var auðvelt að geta gefið þá útskýringu þegar spurt var hvers vegna ég væri ekki að æfa þegar við byrjuðum aftur! En nú finnst mér gott að gera þetta opinbert.“

Sandra er samningsbundin Bayer þar til í sumar. „Ég verð samningslaus í lok júlí og fer þá beint í fæðingarorlof en þangað til held ég mínum launum hjá liðinu. Forráðamenn liðsins hafa líka tilkynnt mér að ég sé velkomin aftur um leið og ég vil og treysti mér til, og það er gott að fara með þá vitneskju inn í meðgönguna. Svo kemur bara í ljós hvað maður gerir eftir að vera kominn með barn í hendurnar.“

Sandra, sem varð 26 ára í janúar, hefur verið í landsliðshópnum síðustu ár. „Þetta ár fer að mestu leyti í æfingaleiki hjá landsliðinu. Ég sé svo til eftir barnsburð hvort ég stefni aftur á landsliðið, en eins og staðan er núna er það auðvitað draumurinn.“