Sandra María með tvö mörk í öruggum sigri
Sandra María Jessen er farin að leggja inn á markareikning sinn hjá knattspyrnuliði Þór/KA á nýjan leik! Hún gerði tvö mörk í 3:0 sigri á Fylki í Lengjubikarkeppninni í Boganum í gær. Þriðja markið gerði Vigdís Edda Friðriksdóttir. Margir héldu reyndar að Sandra hefði skorað þá líka en boltinn mun hafa haft viðkomu í Vigdísi.
Sandra, sem sneri heim í vetur eftir nokkurra ára dvöl hjá Bayer Leverkusen í Þýskalandi, skoraði síðast fyrir Þór/KA í september 2018. Yfirburðir Stelpnanna okkar voru miklir í gær, enda leikur Fylkir í B-deild Íslandsmótsins; liðið féll úr efstu deild síðastliðið haust.
Þór/KA er í 2. sæti í riðli 2 með níu stig og gæti komist í undanúrslit Lengjubikarkeppninnar. Sigri Afturelding ekki Þrótt annað kvöld leikur Þór/KA gegn Breiðabliki í undanúrslitum, en sigri Afturelding á morgun fer liðið upp fyrir Þór/KA í riðlinum og kemst í undanúrslit.
Smelltu hér til að sjá umfjöllun um leikinn á vef Þórs/KA.