Fara í efni
Íþróttir

Sandra María Jessen handleggsbrotnaði

Boltinn lendir í vinstri hönd Söndru Maríu Jessen, eftir að hún þrumaði í fót varnarmanns Tindastóls og boltinn spýttist til baka, með þeim afleiðingum að hún handleggsbrotnaði. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Landsliðskonan Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, handleggsbrotnaði undir lok fyrri hálfleiks í viðureigninni við Tindastól í Bestu deildinni í knattspyrnu í kvöld. Hún fór sárþjáð af velli og var flutt á brott með sjúkrabíl.

Sandra var í góðu færi, þrumaði að marki en boltinn small í fæti varnarmanns – í legghlífinni, að því er virtist – og skaust til baka í vinstri hönd Söndru með þeim afleiðingum að bein brotnaði við úlnliðinn.

Leikmönnum liðanna var augljóslega brugðið og þetta er að sjálfsögðu gríðarlegt áfall bæði fyrir Söndru Maríu og lið Þórs/KA. Fyrirliðinn hóf leiktíðina af miklum krafti og var markahæst í deildinni framan af. Ekki er ljóst hvað hún verður lengi frá vegna meiðslanna.

Hér má sjá myndasyrpu af atvikinu og Akureyri.net sendir þessari mögnuðu íþróttakonu um leið baráttukveðjur. Vonandi nær hún að snúa aftur inn á völlinn fyrr en marga grunar.