Fara í efni
Íþróttir

Samskip og Andrés önd áfram saman í liði

Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, og Fjalar Ö. Úlfarsson, formaður Andrésarnefndar við undirritun samningsins í Hlíðarfjalli á laugardaginn.

Samskip hefur um langt árabil verið bakhjarl Andrésar andar leikanna á skíðum verður áfram næstu þrjú ár hið minnsta. Samningur þar um var undirritaður í Hlíðarfjalli á laugardaginn.

„Það er okkur gríðarlega mikilvægt að leikarnir hafi styrktaraðila úr atvinnulífinu sem með aðkomu sinni hjálpa til við að gera framkvæmd leikanna sem allra besta fyrir þátttakendur og fjölskyldur þeirra,“ segir Fjalar Ö. Úlfarsson formaður undirbúningsnefndar Andrésar leikanna í tilkynningu.

Þar segir að Samskip hafi verið áberandi á öllu efni leikanna og nafn fyrirtækisins prýtt fána og veifur víða um bæinn þegar leikarnir standa yfir. Samskip hafi einnig aðstoðað við flutning á aðföngum og búnaði þau 12 ár sem liðin eru síðan samstarfið hófst.

„Undirbúningur leikanna 2023 hefur staðið yfir síðan í september og er það von framkvæmdaraðila að 47. leikarnir verði glæsilegir og þátttaka skíða- og brettabarna af öllu landinu verði góð eins og verið hefur undanfarin mörg ár.“