SA stelpurnar urðu deildarmeistarar
Kvennalið Skautafélags Akureyrar tryggði sér deildarmeistaratitilinn í íshokkí í dag með 4:2 sigri á liði Fjölnis í Skautahöllinni á Akureyri. Karlalið SA hafði áður náð sama takmarki.
Guðrún Viðarsdóttir kom Fjölni yfir með eina marki fyrstu lotunnar en þær Hilma Bergsdóttir og Amanda Bjarnadóttir sneru taflinu við, hvor með sínu marki, í annarri lotu. Hilma bætti við tveimur mörkum í þriðju lotu og kom SA í 4:1 áður en Sigrún Árnadóttir minnkaði muninn í 4:2.
SA er með 39 stig í toppsætinu, níu stigum á undan Fjölni, þegar aðeins einum leik er ólokið í deildarkeppninni. Liðin mætast aftur á sama stað klukkan 10 á morgun, sunnudag.
Karlalið SA fagnaði einnig sigri. Strákarnir tóku á móti liði Fjölnis í kvöld og unnu 4:1. Unnar Rúnarsson, Jóhann Már Leifsson, Atli Sveinsson og Andri Mikaelsson gerðu mörk SA en Hilmar Sverrisson skoraði fyrir Fjölni. SA er lang efst og hefur fyrir þónokkru tryggt sér deildarmeistaratitilinn.
Karlalið SA spilar einnig aftur á morgun, þegar Skautafélag Reykjavíkur sækir Akureyringa heim kl. 16.45.