SA sigur í síðasta heimaleik deildarinnar
Karlalið SA í íshokki vann lið Fjölnis í lokaleik sínum í deildinni í gærkvöld. SA hafði fyrir nokkru tryggt sér deildarmeistaratitilinn og býr sig nú undir úrslitaeinvígi deildarinnar gegn Skautafélagi Reykjavíkur sem hefst þriðjudaginn 19. mars á Akureyri.
Leikurinn í gær var nokkuð kaflaskiptur. SA Víkingar náðu þriggja marka forystu í fyrsta leikhlutanum. Fjölnismenn minnkuðu muninn í eitt mark um miðja aðra lotu, en þá komu tvö mörk með stuttu millibili frá heimamönnum undir lok annars leikhluta og munurinn aftur orðinn þrjú mörk. Liðin skiptust svo á að skora í þriðju lotunni og lokatölurnar 7-4. Enn einn sigurinn hjá SA Víkingum.
SA Víkingar skiptu markaskorinu nokkuð jafnt niður. Ágúst Máni Ágústsson skoraði tvö mörk og þeir Gunnar Arason, Jóhann Már Leifsson, Uni Steinn Blöndal Sigurðarson, Hafþór Andri Sigrúnarson og Matthías Stefánsson eitt hver. Jóhann Már átti auk þess tvær stoðsendingar, eins og Halldór Skúlason og Andri Freyr Sverrisson. Róbert Steingrímsson varði 18 skot í marki SA, eða tæp 82%.
Leikskýrslan (ihi)
SA Víkingar og SR mætast í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins eins og í fyrra. Þá hirtu sunnanmenn titilinn í oddaleik á Akureyri og má búast við harðri baráttu í ár eins og oftast áður enda hafa Akureyringar engan áhuga á að Íslandsbikarinn dvelji lengur syðra, hvað þá að báðir bikararnir, karla og kvenna, verði heilt ár í burtu á sama tíma!