Íþróttir
Rúnar við stjórnvölinn í Leipzig til vors 2025
16.01.2023 kl. 16:35
Rúnar Sigtryggsson þjálfari SC DHfK Leipzig. Mynd af vef þýsku deildarinnar.
Handboltaþjálfarinn Rúnar Sigtryggsson hefur skrifað undir nýjan samning við þýska félagið SC DHfK Leipzig, sem leikur í efstu deild í Þýskalandi, og stýrir liðinu til vors 2025.
Rúnar fékk sig lausan frá Haukum og tók við þjálfun Leipzig liðsins í byrjun nóvember í haust þegar staðan var afleit. Hann samdi þá til vors. Liðið var í bullandi fallhættu en Rúnar náði að snúa genginu við í snarhasti; Leipzig vann fyrstu sex leikina undir stjórn hans. Liðið tapaði að vísu tveimur síðustu leikjunum fyrir HM-fríið en er um miðja deild. Deildarkeppnin í Þýskalandi hefst á ný um miðjan febrúar.