Fara í efni
Íþróttir

Rodri samningsbundinn KA út leiktíðina 2025

Mynd af vef KA

Spánverjinn Rodrigo Gomes Mateo, lykilmaður í knattspyrnuliði KA síðustu ár, skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við félagið. Rodri er því samningsbundinn knattspyrnudeild KA til loka keppnistímabilsins 2025. Þetta kemur fram á vef félagins í dag.

Rodri hefur verið KA-liðinu afar mikilvægur og enginn vafi á að hann er einn allra besti leikmaður deildarinnar í sinni stöðu aftarlega á miðjunni. 

Á vef KA segir meðal annars í dag:

Rodri gekk í raðir KA fyrir sumarið 2020 og verið algjör lykilmaður í okkar liði og hefur framganga hans í stöðu varnarsinnaðs miðjumanns hefur vakið verðskuldaða athygli. Hann fór fyrir liði KA sem endaði í 2. sæti Bestu deildarinnar í fyrra og tryggði sér þar með sæti í Evrópukeppni í sumar sem verður fyrsta Evrópuverkefni KA í knattspyrnu karla frá árinu 2003.

Rodri er 34 ára gamall Spánverji sem hefur leikið á Íslandi frá árinu 2014 en hann gekk upphaflega til liðs við Sindra áður en hann skipti yfir til Grindavíkur. Með Grindavík var hann í lykilhlutverki og lék þar 92 leiki í deild og bikar uns hann kom yfir í KA þar sem hann hefur leikið 71 leik og gert í þeim fjögur mörk, þar af tvö á síðustu leiktíð.