Fara í efni
Íþróttir

„Réttur“ Þór sigraði og jafnt í einvíginu

Stuðningsmenn Akureyrar-Þórs glöddust mjög í Íþróttahöllinni í kvöld: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar sigruðu nafna sína frá Þorlákshöfn 93:79 í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta, Domino's deildarinnar, í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld. Staðan í einvígi liðanna er þar með orðin 1:1 og þau mætast þriðja sinni næsta sunnudag í Þorlákshöfn. Þrjá sigra þarf til að komast í undanúrslitin.

Gestirnir voru yfir eftir fyrsta leikhluta, 19:16, en eftir það réðu Akureyrar-Þórsarar ferðinni, voru yfir 48:43 í hálfleik og stungu nánast af í þriðja leikhluta; staðan að honum loknum 72:57, en þó mátti alls ekki slaka á gegn frábærum andstæðingi. Gesta-Þórsarar unnu reyndar fjórða leikhlutann með einu stigi, 22:21, en það skipti ekki máli úr því sem komið var.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 16:19 – 32:24 (48:43) – 24:14 – 21:22 (93:79)

Leikurinn einkenndist af gríðarlegri baráttu eins og gjarnan vill verða þegar komið er í úrslitakeppnina. Það skipti sköpum fyrir Þórsara að Deon Dedrick Basile, sá frábæri leikmaður og aðal leikstjórnandi liðsins, var mættur á parketið á ný eftir eins leiks bann, en einnig var gríðarlega mikilvægt hve liðsheildin var öflug; þegar liðið nær sér á strik eru Þórsurum flestir vegir færir og gaman að fylgjast með þeim.

  • Ivan Alcolado 17 stig – 12 fráköst – 4 stoðsendingar (25:56 mínútur af 40)
  • Dedrick Deon Basile 17 stig – 5 fráköst – 8 stoðsendingar (37:42) 
  • Srdjan Stojanovic 21 stig – 6 fráköst – 1 stoðsending (35:33)
  • Guy Landry Edi 14 stig – 9 fráköst – 1 stoðsending(26:39)  
  • Andrius Globys 10 stig – 9 fráköst – 1 stoðsending (36:57)
  • Júlíus Orri Ágústsson 12 stig – 1 stoðsending (19:41)
  • Hlynur Freyr Einarsson  2 stig – 2 stoðsendingar (9:25)
  • Kolbeinn Fannar Gíslason (7:25)
  • Smári Jónsson (0:42)
  • Ólafur Snær Eyjólfsson
  • Páll Nóel Hjálmarsson
  • Ragnar Ágústsson

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.

Takk! Þórsarinn Ivan Alcolado gefur nokkrum eldheitum stuðningsmönnum Þórs olnboga að leikslokum. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Andrius Globys brást ekki bogalistin á moppunni frekar en með boltann í Íþróttahöllinni í kvöld. Til vinstri Júlíus Orri Ágústsson, hægra megin Dedrick Deon Basile og Guy Landry Edi. 

Srdjan Stojanovic var stigahæstur í heimaliðinu í kvöld með 21 stig.

Dedrick Deon Basile reynir að stöðva Larry Thomas.

Andrius Globys brá sér í hlutverk hljómsveitarstjóra um stund.

Guy Landry Edi og Ivan Alcolado.

Styrmir Snær Þrastarson ver skot Dedricks Deon Basile með tilþrifum.