Rautt spjald fyrir glórulausa tæklingu
Þrír ungir KA-menn komu í fyrsta skipti við sögu á Íslandsmóti með meistaraflokki í kvöld þegar liðið sigraði Leikni 3:0 á Dalvík. Þorvaldur Daði Jónsson kom inná á 75. mínútu, Kári Gautason á 79. mín. og Elvar Máni Guðmundsson í blálokin, á 88. mínútu. Sá síðastnefndi er aðeins 15 ára og rúmlega þriggja mánaða og því einn yngsti leikmaður í sögu efstu deildar Íslandsmótsins.
Eins ánægjuleg stund og það er fyrir unga leikmenn að stíga fyrstu sporin á stóra sviðinu verður leikurinn Kára örugglega líka eftirminnilegur fyrir hrottalega tæklingu eins Leiknismannsins. Fyrsti leikurinn hefði líka getað orðið sá síðasti, a.m.k. sá síðasti í langan tíma.
Áhorfendur trúðu vart sínum augum; Octavio Andrés Paez Gil var skipt inná á 71. mínútu, strax eftir að KA komst í 3:0 og sá hefur sennilega ætlað að sanna sig fyrir þjálfaranum. Kári Gautason hafði verið inni á vellinum í fimm mínútur og Leiknismaðurinn í þrettán þegar hann bauð upp á glórulausustu tæklingu sem sést hefur í háa herrans tíð. Sex mínútur voru eftir þegar Kári fékk boltann úti á kanti og átti sér einskis ills von, þegar mótherjinn kom fljúgandi með báða fætur á undan sér. Kári slapp sem betur fer ómeiddur en Vilhjálmi Alvari Þórarinssyni dómara var ekki skemmt. Hann reif rauða spjaldið umsvifalaust úr vasanum og veifaði framan í Leiknismanninn.
Ekki einungis andstæðingum Leiknis fannst framkoma leikmannsins óboðleg. Þjálfari hans, Sigurður Heiðar Höskuldsson, lýsti því yfir í viðtali við fotbolta.net að hann vonaðist til þess að leikmaðurinn fengi meira en eins leiks bann.
Smelltu hér til að sjá viðtalið við þjálfara Leiknis á fotbolti.net.