Rautt spjald, 50. mark Elfars og KA vann
KA-menn gerðu góða ferð í Garðabæinn í dag þegar þeir unnu Stjörnuna 3:0 í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu.
Elfar Árni Aðalsteinsson kom KA á bragðið með 50. marki sínu í efstu deild og því 38. fyrir KA. Hann gerði á sínum tíma 12 mörk fyrir Breiðablik í deild þeirra bestu.
KA menn eru þar með komnir með 50 stig og eru í öðru sæti þegar einn leikur er eftir. Víkingar sem eru með 47 stig eiga eftir að leika í þessari umferð, mæta KR-ingum á morgun. Í síðustu umferð deildarinnar næsta laugardag tekur KA á móti Val og Víkingur mætir nýbökuðum Íslandsmeisturum Breiðabliks í Kópavogi.
Elfar Árni gerði fyrsta mark leiksins á 38. mín. Vinstri bakvörðurinn Bryan Van Den Bogaert sendi fyrir markið og varnarmenn heimamanna voru með hugann við eitthvað annað en að gæta Húsvíkingsins markasækna. Sé litið til sögunnar er þó full ástæða til þess að hafa auga með honum; Elfar Árni hafði nefnilega skorað í síðustu fjórum leikjum gegn Stjörnunni í Garðabæ!
Á lokamínútu fyrri hálfleiks brutust svo út hálfgerð fjöldaslagsmál á vellinum; Stjörnumaðurinn Daníel Laxdal gerði sér lítið fyrir og tók Elfar markaskorara hálstaki, hrinti honum í jörðina og hlaut réttilega rautt spjald að launum. KA-menn voru því einum fleiri allan seinni hálfleikinn.
Jakob Snær Árnason gerði annað markið á 55. mín. og varnarleikur Stjörnunnar var ekki beysinn þá frekar en í fyrsta markinu. Dusan Brkovic átti langa sendingu inn fyrir vörnina, Jakob slapp í gegn og skoraði auðveldlega. Hafi varnarmenn Stjörnunnar verið utan við sig þegar tvö fyrstu mörkin komu er erfitt að finna orð yfir að þriðja á 74. mín. Hallgrímur Mar tók horn og varnarmaðurinn Björn Berg Bryde gerði ótrúlegt sjálfsmark. Hann stóð á markteignum, enginn gerði tilraun til að berjast við hann um boltann en engu líkara var en Bryde héldi að hann væri í sókn; hann skallaði boltann af krafti í eigið mark, öllum til mikillar undrunar.
Vísir birti myndbrot af slagsmálunum í Garðabænum. Smellið hér til að horfa.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.