Fara í efni
Íþróttir

Rannveig, Þorbergur, Halldór og Sigþóra á HM

Íslenska landsliðið sem keppir í Tælandi í kvöld og nótt.

Fjórir Akureyringar verða í eldlínunni í kvöld og nótt – að íslenskum tíma – á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í Tælandi.

Rannveig Oddsdóttir og Þorbergur Ingi Jónsson hlaupa bæði 80 kílómetra og leggja af stað kl. 23.30 í kvöld en Halldór Hermann Jónsson og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, sem hlaupa 40 km, hefja keppni hálftíma eftir miðnætti.

Keppt er í Chiang Mai í norðurhluta landsins. Þar er nú um 30 stiga hiti og mikill raki. „Ég hef kallað þetta stærsta gufubað í heimi en allir íslensku hlaupararnir eru klárir í verkefnið og mikil stemmning í hópnum,“ segir Friðleifur Friðleifsson, liðsstjóri landsliðsins.

Allir sterkustu utanvegahlauparar heims taka þátt í mótinu. Keppt er í þeim tveimur vegalengdum sem nefndar voru að framan, í fjalllendi Chiang Mai; 2500 m hækkun er í 40 km hlaupinu og 5000 m hækkun í 80 km hlaupinu.

„Árangur undanfarna ára sýnir að Ísland hefur á að skipa mjög öflugum hlaupurum sem geta veitt þeim allra bestu í heimi verðuga keppni. Utanvegahlaup eru vaxandi íþrótt um allan heim og það er ánægjulegt hversu eftirtektarverður árangur íslenskra utanvegahlaupara er orðinn,“ segir í tilkynningu frá Frjálsíþróttasambandi Íslands.

Tíu skipa landslið Íslands á mótinu, fimm karlar og fimm konur. Auk Akureyringanna eru það Andrea Kolbeinsdóttir, Elísabet Margeirsdóttir, Íris Anna Skúladóttir, Sigurjón Ernir Sturluson, Þorsteinn Roy Jóhannsson og Þórólfur Ingi Þórsson.

Hægt er að fylgjast með ferðalagi landsliðsins og keppninni á Facebook síðu liðsins og á heimasíðu Frjálsíþróttasambandsins. Smellið hér til að komast á Facebook síðuna og hér til að fara á heimasíðu FRÍ.