Fara í efni
Íþróttir

Rammastur að afli í fjórða sinn – MYNDIR

Akureyringurinn Sigfús Fossdal ber nú titilinn Aflraunameistari Íslands í fjórða skipti eftir sigur í keppni karla um nafnbótina við menningarhúsið Hof á Akureyri á laugardaginn. Akureyri.net greindi stuttlega frá niðurstöðunni þá en hér eru ítarlegri upplýsingar og fjöldi ljósmynda frá keppninni.

Íslandsmót í drumbalyftu fór einnig fram við Hof sama dag. Þar kepptu konur einnig og Íslandsmeistari varð Ragnheiður Jónasdóttir. Í karlaflokki bar Kristján Sindri Níelsson sigur úr býtum. Hann og Sigfús Fossdal lyftu báðir 165 kg, en Kristján telst sigurvegari því hann lyfti meiri þyngd þegar allar lyfturnar voru lagðar saman.

Árangur Ragnheiðar í drumbalyftu er ótrúlega magnaður að sögn þeirra sem til þekkja. Hún er eina konan á Íslandi sem lyft hefur 100 kg eða meira í slíkri keppni; í fyrra tókst henni í fyrsta skipti að lyfta 100 kg en bætti metið núna þegar 101 kg fór á loft!

Ragnheiður Jónasdóttir hóf 101 kg á loft í drumbalyftu. Engin íslensk kona hefur áður lyft svo miklu í slíkri keppni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Erika Jónsdóttir sem varð önnur hefur aðeins keppt í eitt ár en aldrei lent neðar en í þriðja sæti í keppni. Hún er ein örfárra íslenskra kvenna sem hefur náð 80 kg í drumbalyftu. Hanna Kristínardóttir varð í þriðja sæti með 60 kg.

Sigfús Fossdal hefur sigrað oftar en nokkur annar í keppninni Aflraunameistari Íslands. Hún var fyrst haldin um 1990, keppt var í nokkur skipti og þá sigraði í tvígang Magnús Ver Magnússon, sá kunni kraftajötunn. Keppnin var endurvakin 2011 og hefur farið fram síðan með hléum, síðast vegna Covid. Keppt var á nýjan leik í fyrra og þá sigraði Sigfús Fossdal einnig.

Kristján Sindri Níelsson tók nú þátt í keppni fyrsta sinni í sumar og varð í öðru sæti og þriðji varð Matthew Riddall, Breti sem býr á Tenerife og keppir oftast í öldungaflokki. Hann gerði vel við Hof og bætti sig í flestum greinum. Að sögn Sigfúsar Fossdal, eins þeirra sem skipulagði keppnina – og sigraði eins og áður kom fram – er Riddall vinsæll í sjónvarpi á Tenerife fyrir aflraunir. Hann tekur nú þátt í keppninni Spain Got Talent og er hann kominn í undanúrslit, að sögn Sigfúsar.

Í keppninni Aflraunameistari Íslands er keppt í drumbalyftu, réttstöðulyftu, sandpokaburði, bændagöngu sem svo er kölluð, og í Atlas steinalyftu.

Sigfús er sjálfur nýbyrjaður keppni á ný eftir baráttu við krabbamein og fleira og kveðst því skiljanlega mjög sáttur við árangurinn á mótinu. Hann varð fertugur fyrr í mánuðinum og getur því orðið keppt sem öldungur líkt og Matthew.