Petrov og Arnór Þorri fóru hamförum á Dalvík
Þórsarar unnu ungmennalið Fram í dag með fimm marka mun, 36:31, í Grill66 deild karla, næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Leikurinn var á Dalvík þar sem Íþrótthöllinn á Akureyri var upptekin vegna árshátíðar starfsmanna sjúkrahússins.
Óhætt er að segja að tveir leikmenn hafi staðið upp úr í Þórsliðinu, altjent hvað markaskorun varðar: línumaðurinn ógnarsterki, Kostadin Petrov, gerði 14 mörk og Arnór Þorri Þorsteinsson gerði 13! Færeyski hornamaðurinn Jonn Rói Tórfinnsson var með 4 mörk, Viðar Ernir Reimarsson 3 og Josip Vekic 2. Þórsarinn Arnar Þór Fylkisson varði 14 skot.
HK og ungmennalið KA eru með fimm stig að loknum þremur leikjum í deildinni og Þór með fjögur stig. Strákarnir í ungmennaliði KA unnu tvo fyrstu leikina en gerðu jafntefli 36:36 við HK í gær.