Fara í efni
Íþróttir

Andri Snær: „Ótrúlega stoltur af liðinu“

Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir voru markahæstar hjá KA/Þór í dag, gerðu báðar sex mörk. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason.

KA/Þór er enn á toppi Olísdeildar kvenna í handbolta, ásamt Fram, eftir leiki dagsins. Akureyrarliðið vann Stjörnuna, 27:26, í Garðabæ en fyrr í dag fóru Framstúlkur á toppinn með öruggum sigri á Val, 30:22.

Jafnræði var með liðunum framan af leik í Garðabænum en KA/Þór náði fljótlega yfirhöndinni, var komið fimm mörkum yfir, 12:7 þegar 20 mínútur voru búnar og fimm mínútum síðar var munurinn orðinn átta mörk, 17:9. Staðan var 18:12 í hálfleik.

„Þetta var ótrúlega sveiflukenndur leikur. Við spiluðum stórkostlega í fyrri hálfleik, vörnin var frábær, stelpurnar fljótar fram völlinn og gott flæði var í sókninni. Það er geggjað að gera 18 mörk í fyrri hálfleik gegn góðu Stjörnuliði,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs við Akureyri.net.

„Svo er óhætt að segja að dæmið hafi snúist við í seinni hálfleik. Við vorum búin að missa niður forskotið eftir 10 mínútur og komin undir þegar 10 mínútur voru eftir,“ sagði Andri.

Stjörnustúlkur byrjuðu með miklum látum í seinni hálfleik og gerðu fjögur fyrstu mörkin, fljótlega náðu þær að jafna og komust meira að segja yfir – ótrúlegt en satt – 24:23 þegar 10 mínútur voru eftir. Þór/KA var reyndar ekki lengi að ná forystu á ný en munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk. Ásdís Guðmundsdóttir gerði síðasta mark KA/Þórs úr víti þegar þrjár mínútur eftir og síðasta mark Stjörnunnar kom nánast strax á eftir, einnig úr víti. Síðan gekk hvorki né rak síðustu mínúturnar; á lokamínútunni fór Ásdís inn úr horninu þegar lítið var eftir en hitti ekki Stjörnumarkið og hinum megin gerðist það sama; hin margreynda Hanna Guðrún Stefánsdóttir fór inn úr horninu á síðustu sekúndu leiksins en hitti heldur ekki markið og leikmenn KA/Þórs fögnuðu sætum sigri!

„Við vorum í alls konar brasi vegna brottvísana og meiðsla, en það náðist reyndar að tjasla öllum saman svo þær fóru aftur inn á og náðu að klára leikinn,“ sagði Andri. „Stelpurnar sýndu ótrúlega karakter; þetta var sterkur liðssigur og ég er ótrúlega stoltur af liðinu mínu,“ sagði Andri.

Rut Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir gerðu 6 mörk hvor í dag fyrir KA/Þór, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 5, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2 og Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1. Matea Lonac varði 11 skot og Sunna Guðrún Pétursdóttir 2.

KA/Þór og Fram eru með 14 stig en Valur í þriðja sæti með 11, þegar fimm umferðir eru eftir. Stelpurnar okkar eiga eftir að mæta báðum Reykjavíkurrisunum, Valur kemur norður 27. mars og svo skemmtilega vill til að í síðustu umferðinni, 5. apríl, mætast Fram og KA/Þór í Reykjavík. Að því loknu tekur við úrslitakeppni.

KA/Þór á þessa leiki eftir í deildinni:

  • KA/Þór – FH 27. febrúar
  • KA/Þór – Haukar 6. mars
  • HK – KA/Þór 10. mars
  • KA/Þór – Valur 27. mars
  • Fram – KA/Þór 5. apríl