Fara í efni
Íþróttir

Ótrúleg mistök og Þórsarar eru úr leik

Emil Atlason fagnar marki Stjörnunnar en Aron Birkir markvörður Þórs var eðlilega miður sín vegna mistakanna sem hann gerði. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Sjaldséð mistök Arons Birkis Stefánssonar markvarðar Þórs færðu Stjörnumönnum farseðilinn í undanúrslit bikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld.

Þór og Stjarnan mættust á VÍS-velli Þórs í Þorpinu. Þegar komið var í uppbótartíma, staðan enn 0:0 og allt stefndi í framlengingu, kom laus sending inn á markteig Þórs, Aron Birkir ætlaði að handsama boltann en missti hann frá sér. Boltinn hrökk fyrir fætur Róberts Frosta Þorkelssonar sem var aleinn á markteignum og þurfti ekki annað en reka tána í boltann til að stýra honum í markið.

Þórsarar hófu leik á ný í miðjuhringinum og spyrntu langt fram völlinn en í sömu mund flautaði Helgi Mikael Jónasson leikinn af.

Niðurstaðan var Þórsurum hræðileg vonbrigði því þeir fengu betri færi í leiknum og geta vitaskuld líka nagað sig í handarbökin af þeim sökum. Ekki er hægt að vinna leiki án þess að skora og því blóðugt að nýta ekkert af þeim færum sem sköpuð voru. En mistök Arons Birkis standa upp úr og ekki annað hægt en finna til með þessum trausta markverði.

Þórsarar fengu hættulegri færi til að skora í fyrri hálfleik en gestirnir: 

  • Ingimar Arnar Kristjánsson fékk góða sendingu aftur fyrir vörn Stjörnunnar frá Rafael Victor á sjöundu mínútu, lék áfram og skaut að marki vinstra megin úr teignum en Mathias Rosenörn varði vel. 

  • Eftir rúmlega stundarfjórðung lék sá kraftmikli unglingur Egill Orri Arnarsson upp að endamörkum vinstra megin og gaf fyrir markið, þar sem aðeins munaði hársbreidd að Ingimar Arnar næði að skalla boltann eins og sjá má.
  • Eftir rúman hálftíma ógnaði Ingimar enn einu sinni; skaut utan úr teig hægra megin og boltinn smaug naumlega framhjá fjærstönginni.

  • Undir lok fyrri hálfleiks fékk Rafael Victor mjög gott skotfæri í miðjum vítateignum en skot hans var slakt og Rosenörn varði auðveldlega. 

Hættulegasta færi Stjörnumanna í fyrri hálfleik var þegar Emil Atlason skallaði að marki eftir rúman hálftíma en boltinn fór beint á Aron Birki sem greip hann auðveldlega. Skömmu síður þrumaði Óli Valur Ómarsson að Þórsmarkinu utan úr teig en Rafael Victor náði að skalla boltann aftur fyrir endamörk.

Lítið var um færi í seinni hálfleik og allir virtust búnir að sættast á að halda áfram í hálftíma, þegar eina markið kom í blálokin.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna