Örvhentur landi þjálfarans til Þórs
Örvhent skytta frá Norður-Makedóníu, Tomislav Jagurinovski, hefur samið við handknattleiksdeild Þórs um að leika með liðinu í vetur. Hann verður löglegur þegar Þórsarar mæta liði Berserkja í Reykjavík annað kvöld.
Jagurinovski, sem er 24 ára, gengur til liðs við Þór frá besta liði Norður-Makedóníu, RK Vardar 1961 – sem áður var kallað Vardar Skopje. Þar lék hann undir stjórn Stevce Alusovski, núverandi þjálfara Þórs, þegar Vardar varð bæði lands- og bikarmeistari á síðasta keppnistímabili. Jagurinovski hefur fá tækifæri fengið með liðinu í vetur og sló því til þegar Þórsarar buðu honum að koma. Hann leikur yfirleitt í skyttustöðu en getur einnig leikið í hægra horninu.
Jagurinovski á að baki leiki með öllum yngri landsliðum Norður-Makedóníu og var nýlega valinn í 25 manna landsliðshóp fyrir komandi verkefni, að sögn Árna R. Jóhannessonar, formanns handknattleiksdeildar Þórs.
Samningurinn er til eins árs en með möguleika á framlengingu.