Öruggur sigur Þórs á Gróttu – MYNDIR
Þórsarar unnu sanngjarnan 3:1 sigur á Gróttu á heimavelli í gærkvöldi í Lengjudeildinni í knattspyrnu og skutust upp í sjöunda sæti. Á mánudaginn mæta þeir Grindvíkingum á heimavelli, í leik sem frestað var fyrr í sumar, og með sigri þar færu Þórsarar upp í fjórða sæti.
Þór hefur nú fengið sjö stig í þremur leikjum en þar áður töpuðust þrír í röð sem voru vitaskuld gríðarleg vonbrigði.
Fyrri hálfleikurinn var afar bragðdaufur svo ekki sé fastar að orðið kveðið. Pétur Theódór Árnason skoraði fyrir Gróttu á lokamínútum hálfleiksins með skalla en annað var ekki sérlega minnisstætt. Það var hins vegar gjörbreytt Þórslið sem kom út völl til seinni hálfleiks. Sjálfstrausti virtist hafa verið dælt í leikmenn í búningsklefanum og þeir réðu ferðinni.
Ánægjulegt var að sjá frammistöðuna í seinni hálfleik, þá sýndu Þórsarar hvers þeir eru megnugir, því mannskapurinn er mun betri en staðan í deildinni gefur til kynna. Þeir voru án Birkis Heimissonar, sem var í leikbanni vegna fjögurra áminninga í sumar, og Fannars Daða Malmquist Gíslasonar, sem segir nokkuð um breiddina í hópnum.
HÖRKUSKALLI RAGNARS ÓLA
Þórsarar sóttu af krafti í byrjun seinni hálfleiks, fengu nokkrar hornspyrnur og úr einni þeirra, sem Marc Rochster Sörensen tók af stakri snilld á 54. mínútu, stökk Ragnar Óli Ragnarsson (númer 19) manna hæst og skoraði með þrumuskalla. Þetta var fyrsta mark varnarmannsins stóra og sterka í sumar.
_ _ _
ÞÓR TEKUR FORYSTU
Daninn Marc Rochster Sörensen tók aftur hornspyrnu frá vinstri fimm mínútum eftir að Ragnar Óli skoraði, nokkrir Gróttumenn og tveir Þórsarar stukku með Rafael Stefáni markverði. Hann náði ekki til knattarins sem lenti rétt utan markteigs hægra megin og Kristófer Kristjánsson skoraði með vinstri fótar skoti.
_ _ _
LANGÞRÁÐ STUND
Þungu fargi var létt af mörgum Þórsaranum í gærkvöldi, engum þó líklega eins og framherjanum Rafael Victor, þegar hann skoraði undir lok leiksins. Rafael gerði 13 mörk fyrir Njarðvík í deildinni á síðasta ári, var fenginn til Þórs í því skyni að halda þeirri iðju áfram, en hafði ekki skorað nema tvisvar í deildarleik í sumar – gegn Þrótti 3. maí og Aftureldingu 9. maí. Þetta var sem sagt fyrsta mark hans í tæpa tvo mánuði.
Hann skoraði fáeinum augnablikum fyrir lok uppbótartíma. Elmar Þór Jónsson brunaði upp vinstri kantinn og þrátt fyrir að einn Gróttumanna ýtti hraustlega við honum náði Elmar að senda fyrir markið og Rafa skoraði örugglega úr markteignum. Ekki erfiðasta eða flottasta mark sem hann hefur gert á ferlinum en það gæti kveikt í þessum marksækna framherja á ný.
Rafael fagnaði vel og innilega og ekki síður liðsfélagarnir. Hann klæddi sig úr treyjunni og henti frá sér eins og menn eiga til á stundum sem þessari og hlaut að launum áminningu – gult spjald – frá Guðgeiri Einarssyni en lét sér fátt um finnast. Gleðin var spjaldinu yfirsterkari.