Fara í efni
Íþróttir

Öruggt hjá Þórsurum gegn Berserkjum

Króatinn Josip Kezic lék vel í dag í frumraun sinni með Þórsliðinu. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Þórsarar sigruðu botnlið Berserkja í dag, 29:24, í Grill 66 deildinni í handbolta, næst efstu deild Íslandsmótsins. Liðin mættust í Höllinni á Akureyri. Staðan var jöfn, 14:14, í hálfleik.

Króatinn Josip Kezic var með Þór í fyrsta skipti, þrautreyndur 31 árs leikmaður sem kann greinilega mikið í handoltafræðunum. Hann hefur að vísu ekki spilað keppnisleik síðan í haust og virkaði frekar þungur á sér, en hann stýrði sóknar- og varnarleik liðsins vel á löngum köflum. Spennandi verður að sjá hann með ungu Þórsurunum það sem eftir lifir tímabilinu.

Arnar Þór Fylkisson var veikur og því stóð Kristján Páll Steinsson í markinu; byrjaði sinn fyrsta leik í meistaraflokki. Hann gerði sér lítið fyrir og varði 19 skot og var valinn Sprett-inn maður leiksins af Þórsurum.

Norður-Makedóninn Tomislav Jagurinovski tók út leikbann í dag, svo og Stevce þjálfari, auk þess sem Arnór Þorri Þorsteinsson er í sóttkví.

Tveir strákur snéru inn á völlinn á ný eftir langa fjarveru vegna meiðsla, sem eru einkar ánægjuleg tíðindi. Þetta var fyrsti leikur Heimis Pálssonar síðan hann sleit krossband á síðasta keppnistímabili og hann hélt upp á daginn með því að vera markahæstur – gerði átta mörk. Þá spilaði Aron Hólm Kristjánsson fyrstu mínúturnar síðan hann meiddist í haust.

Markahæstur í dag var eins og fyrr segir Heimir Pálsson með átta mörk, Jóhann Einarsson og Arnþór Gylfi Finnsson gerðu sjö hvor, Viðar Ernir Reimarsson var með þrjú, Viktor Jörvar tvö og eitt hvor þeir Kezic og fyrirliðinn Aðalsteinn Bergþórsson.

Þórsliðið er eftir sem áður í fjórða sæti deildarinnar. Er með 16 stig að loknum 11 leikjum, fjórum stigum á eftir Fjölni og Herði sem eru í öðru og þriðja sæti. Vert er að geta þess að Þórsarar eiga einn leik til góða á Hörð og tvo á Fjölni.