Fara í efni
Íþróttir

Öruggt gegn Leikni á Dalvíkurteppinu

Hallgrímur Mar Steingrímsson skorar fyrsta mark leiksins á Dalvík - fyrra sitt af tveimur úr vítaspyrnu. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason.

KA sigraði Leikni úr Reykjavík mjög örugglega í dag, 3:0, í fyrsta heimaleik sumarsins í efstu deild Íslandsmótsins í fótbolta, Pepsi Max deildinni. Leikið var á gervigrasvelli Dalvíkinga vegna þess að vallaraðstæður á Akureyri þykja ekki boðlegar fyrir efstu deild karla í augnablikinu.

Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvívegis í dag, í bæði skiptin úr vítaspyrnu, og Ásgeir Sigurgeirsson gerði þriðja markið. Segja má að boðið hafi verið upp á alvöru norðlenskan kokteil; Húsvíkingar sáu um að skora mörkin þegar lið frá Akureyri sigraði á heimavelli sínum á Dalvík! KA er því komið með sjö stig eftir þrjá leiki í deildinni.

Sigur KA-manna var mjög sanngjarn, þeir höfðu mikla yfirburði í fyrri hálfleiknum en gerðu þó aðeins eitt mark og það úr vítaspyrnu sem Leiknismenn hljóta að vera afar vonsviknir yfir, vegna þess að Bjarki Aðalsteinsson braut mjög klaufalega af sér. Sömu sögu má reyndar segja af seinna vítinu, þá braut Bjarki aftur á KA-manni inni í teig af fádæma klaufaskap. Það var snemma í seinni hálfleik, Leiknismenn höfðu byrjað hann mjög vel og voru meira og minna með boltann fyrstu 10 mínúturnar en þá skutust KA-menn fram, fengu víti og gulltrygðu í raun sigurinn.

KA-menn kunnu augljóslega vel við sig á Dalvík í kvöld, enda aðstæður til mikillar fyrirmyndar. Ánægðastir allra voru sennilega tvíburabræðurnair Þorri Mar og Nökkvi Þeyr, enda þeir einu sem voru í alvörunni á heimavelli, uppaldir á Dalvík. Nökkvi var á hægri kantinum að vanda og Þorri lék nú í stöðu hægri bakvarðar. Þorri er vanari að leika framar á vellinum í seinni tíð en var reyndar oft bakvörður á yngri árum. Nokkrir KA-menn glíma við meiðsli þessa dagana, m.a. tveir hægri bakverðir svo heppilegt var fyrir Arnar þjálfara Grétarsson að eiga ásinn Þorra uppi í erminni. Ekki er ólíklegt að hann verði oft notaður í þessari stöðu héðan í frá.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Ásgeir Sigurgeirsson kunni vel við sig á Dalvík eins og aðrir KA-menn og gerði eitt mark.

Allt var eins og best varð á kosið á Dalvík í kvöld. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason.