Ólíkir sjálfum okkar í dag – vorum lélegir
Þórsarar urðu að gera sér eitt stig að góðu í dag, þegar þeir gerðu jafntefli við Víkinga í Ólafsvík, í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins. Leikurinn fór 2:2 en þegar Víkingar jöfnuðu í seinna skiptið, á 82. mínútu, voru þeir tveimur mönnum færri. Einn þeirra var rekinn af velli strax í byrjun seinni hálfleiks og annar á 73. mínútu.
Orri Hjaltalín, þjálfari Þórs, var eðlilega ekki ánægður með frammistöðu sinna manna. „Ég er gríðarlega svekktur með hvernig loka niðurstaðan var. Við vorum ólíkir sjálfum okkur í dag og vorum lélegir eiginlega allan leikinn," sagði Orri við fotbolta.net að leikslokum.
Orri Sigurjónsson kom Þórsurum í 1:0 á 10. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi í kjölfar hornspyrnu. Heimamenn jöfnuðu skömmu fyrir leikhlé en nægur tími var þó fyrir Þór til að komast yfir á ný; Jakob Snær Árnason skoraði þá með frábæru skoti utan vítateigs, á síðustu mínútu hálfleiksins.
Þórsarar fengu gullið tækifæri til að bæta þriðja markinu við en vítaspyrna Alvaro Montejo var varin á 52. mín. Þegar vítið var dæmt var fyrri Ólafsvíkingurinn rekinn út af. Þeir jöfnuðu svo seint í leiknum sem fyrr segir.
Víkingar höfðu tapað fyrstu fjórum leikjunum þannig að stigið í dag var það fyrsta í sumar. Þórsarar eru komnir með sjö stig eftir fimm leiki.
Smellið hér til að sjá umfjöllun fotbolta.net um leikinn.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.