Fara í efni
Íþróttir

Öflugar Þórsstelpur skelltu Grindvíkingum

Alexis Morris (23) var langstigahæst í Grindavíkurliðinu með 35 stig, en þó aðeins níu stig í seinn hálfleiknum. Esther Fokke, Amandine Toi og Maddie Sutton eru hér til varnar, en Þórsliðið spilaði bæði vel í sókn og vörn í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Fyrsti sigur Þórs í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Bónusdeildinni, leit dagsins ljós í kvöld þegar Grindvíkingar sóttu Þórsliðið heim í Íþróttahöllina á Akureyri. Forysta Þórsara varð mest 19 stig snemma í fjórða leikhluta og stutt áhlaup Grindvíkinga með pressuvörn á lokamínútunni var of lítið og of seint. Þór vann að lokum tíu stiga sigur.

Fyrsti leikhlutinn var hnífjafn, en Grindvíkingar sigu örlítið fram úr undir lok hans. Það stóð þó ekki lengi því Þórsstelpurnar byrjuðu annan leikhlutann af krafti og leiddu með fimm stigum að loknum fyrri hálfleiknum. Alexis Morris, bandarískur leikmaður Grindavíkurliðsins, reyndist Þórsliðinu erfið, skoraði 26 stig í fyrri hálfleiknum.

Þórsliðið hélt áfram af krafti fram eftir þriðja leikhlutanum og Esther Fokke endaði hann með þriggja stiga flautukörfu. Hrefna Ottósdóttir tók við keflinu í upphafi fjórða leikhlutans með tveimur þristum og Esther kom svo með þann þriðja áður en fyrstu stig Grindvíkinga duttu. Munurinn orðinn 19 stig og með baráttu og sigurvilja kláruðu þær leikinn með sigri þrátt fyrir stutt áhlaup gestanna eins og áður var nefnt. 

Amandine Toi var stigahæst í Þórsliðinu með 27 stig og Maddie Sutton tók 14 fráköst. Hjá gestunum var það Alexis Morris sem var langöflugust eins og áður sagði, skoraði 35 stig, en aðeins níu þeirra komu í seinni hálfleiknum.  

  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Hrefna Ottósdóttir, Maddie Sutton
  • Gangur leiksins: Þór - Grindavík (19-21) (27-20) 46-41 (19-14) (16-16) 81-71

Tölfræði leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Amandine Toi 27 - 6 - 1
  • Eva Wium Elíasdóttir 14 - 5 - 2
  • Maddie Sutton 12 - 14 - 9
  • Esther Fokke 12 - 4 - 4
  • Hrefna Ottósdóttir 12 - 2 - 2
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 4 - 2 - 0

Þórsstelpurnar hafa þar með unnið einn leik af fyrstu þremur eins og Stjarnan, Grindavík og Njarðvík, en Keflavík, Hamar/Þór, Valur og Aþena eru einnig með einn sigur hvert lið, en eftir tvo leiki því þessi lið spila á morgun.

Myndin hér að neðan gefur til kynna helstu tölfræðíþætti og þar má meðal annars sjá að hittni Þórsliðsins úr tveggja stiga skotum var afbragðs góð. Smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins.