Fara í efni
Íþróttir

Óðinn Þór bestur hjá KA, Rut best í KA/Þór

Rakel Sara Elvarsdóttir, Óðinn Þór Ríkharðsson, Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Bruno Bernat. Mynd af vef KA.

Óðinn Þór Ríkharðsson var valinn besti leikmaður handboltaliðs KA í vetur og Rut Arnfjörð Jónsdóttir besti leikmaður KA/Þórs. Þetta var tilkynnt á lokahófi handknattleiksdeildar KA í fyrrakvöld.

Óðinn Þór kom til KA fyrir nýliðið keppnistímabil og lék mjög vel, hann varð markahæsti leikmaður Olís deildarinnar með 149 mörk – 7,1 að meðaltali í leik – og var valinn besti hægri hornamaður deildarinnar. 

Rut er besti leikmaður Olís deildar kvenna að margra mati og lykilmaður í liði KA/Þórs. Hún „átti annað stórbrotið tímabil með liðinu en auk þess að spila frábærlega þá lyftir hún liðsfélögum sínum upp á hærri stall,“ segir á heimasíðu KA og óhætt að taka undir það.

Markvörðurinn Bruno Bernat var valinn efnilegasti leikmaður KA og Rakel Sara Elvarsdóttir var valin efnilegasti leikmaður KA/Þórs annað árið í röð.

Á lokahófinu voru ýmsir heiðraðir; meðal annars Martha Hermannsdóttir sem tók í vetur þátt í 300. leiknum með KA/Þór, nokkrir leikmenn voru heiðraðir fyrir 100 leiki og Andri Snær Stefánsson og Jón Heiðar Sigurðsson voru heiðraðir fyrir framlag sitt til KA. Andri var lengi fyrirliði liðsins, og Jón Heiðar, fyrirliði í vetur, hefur nú lagt skóna á hilluna.

Nánar hér á heimasíðu KA.