Fara í efni
Íþróttir

Oddur undir hnífinn, Arnór Þór jafnvel líka

Oddur Gretarsson og Arnór Þór Gunnarsson.

Oddur Gretarsson og Arnór Þór Gunnarsson, atvinnumenn í handbolta í Þýskalandi, glíma báðir við meiðsli. Aðgerð er framundan hjá Oddi fljótlega, jafnvel Arnóri líka.

Oddur er meiddur í hné. „Það þarf að spegla hnéð og gera við brjóskskemmd,“ segir hann við Akureyri.net. „Ég spila ekki meira í vetur með nema hvað ég get farið inn á til að taka víti. Fimm leikir eru eftir af deildinni en gert er ráð fyrir að ég verði í hópnum í næstu tveimur og fara svo undir hnífinn,“ segir hann.

Arnór Þór er hins vegar meiddur í kálfa. Fann fyrir óþægindum undir lok síðasta leiks og við sneiðmyndatöku í gær kom í ljós að rifur hafa myndast í vöðva. „Þetta er því meira en tognun, liðsæknirinn ætlar að meta þetta betur með mér á mánudaginn en talað er um að ég verði frá í tvær til fjórar vikur,“ segir hann.

Balingen – Weilstetten, sem Oddur leikur með, vann óvæntan og frækinn sigur á Rhein-Neckar Löwen á heimavelli fyrir helgina, 32:30, og er nú þremur stigum frá efsta fallsætinu. Arnór og samherjar hans í Bergischer unnu einnig síðasta leik, tóku á móti Göppingen, og sigruðu 29:28. Addi gerði þrjú mörk, þar af tvö af vítalínunni. Bergischer er um miðjan deild.