Fara í efni
Íþróttir

Ný hugmynd að stað fyrir heilsugæslu

Mynd úr nýrri tillögu Bergfestu. Horft suðurs frá hringtorgi við Kjarnagötu. Þarna sést innkeyrsla lóðarinnar og aðkoma að 2. hæð hússins sem snýr til vesturs. Fjölbýlishús við Davíðshaga í baksýn. Mynd: Kollgáta

Byggingarfélagið Bergfesta á Akureyri hefur varpað fram nýrri hugmynd að staðsetningu heilsugæslustöðvar í suðurhluta bæjarins. Um er að ræða lóðina Naustagötu 13; skipulagsráð hefur samþykkt deiliskipulag fyrir tvö hús með verslun og þjónustu á jarðhæð en íbúðum á efri hæðum en skv. nýrri tillögu yrði verslun og þjónusta á neðstu hæð hússins en heilsugæsla á tveimur efri hæðum.

  • Upphaflega stóð til að ný heilsugæslustöð risi á horni Þingvallastrætis og Byggðavegar, nyrst á svokölluðum tjaldsvæðisreit, en fallið var frá því.
  • Hugmynd hefur verið uppi að stöð fyrir íbúa í suðurhluta bæjarins risi í grennd við Sjúkrahúsið en ekkert hefur frést frekar af því.
  • Nýlega velti skipulagsráð velti fyrir sér möguleika að koma nýrri heilsugæslustöð (suður) fyrir á lóð sunnan við Kjarnagötu 2, sunnan verslunar Bónus, ef þær tillögur á staðsetningu sem hafa verið í undirbúningi gangi ekki upp.

„Hugmynd okkar gengur út á að byggja verslunar- og þjónustukjarna í hjarta nýju byggðahluta Akureyrarbæjar, Naustahverfis og Hagahverfis. Í þeim hverfum hefur mikil og öflug uppbygging átt sér stað undanfarin ár en nærþjónusta hefur ekki fylgt þeirri uppbyggingu þannig að mikil vöntun er á verslunar- og þjónusturými í þessum bæjarhluta,“ segir í nýrri tillögu Bergfestu.

Húsin eru teiknuð af Kollgátu arkitektúr, teiknistofu á Akureyri.

Hér er horft í norð-vestur, í átt að Naustagötu 13 frá göngustíg við Davíðshaga, Á hægri hönd má sjá göngustíg sem skilur að Naustagötu 11 og 13 og tengist gönguleiðum norður í Naustahverfi. Mynd: Kollgáta

„Akureyrarbær og Heilbrigðisráðuneytið hefur einnig leitað að lausnum fyrir nýja heilsugæslustöð og með þessari tillögu yrði Heilsugæslan Hagahverfi í göngufæri við um 4.000 manna bæjarhluta, og í nokkurra mínútna akstursfjarlægð bæði frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og Hjúkrunarheimili Heilsuverndar,“ segir í nýrri tillögu Bergfestu.

Tillagan gerir ráð fyrir að nýta landhalla lóðarinnar frá vestri til austurs til þess að byggja rúmlega 2000m² verslunar og þjónustuhæð, sem vegna landhallans verður frágrafin að fullu á austurhliðinni og að verulegu leyti á bæði norður og suðurhlið.

Örin visar á reitinn sem fjallað er um í fréttinni. Mynd: Þorgeir Baldursson

„Ofan á þessa jarðhæð komi síðan tvær hæðir um 950m² að stærð þar sem yrði heilsugæslustarfsemi á tveimur hæðum. Innangengt yrði á norð-vesturhlið inn á 1. hæð heilsugæslunnar. Við bygginguna er einnig gert ráð fyrir yfir 100 bílastæðum,“ segir í tillögunni.

„Staðsetning kjarnans er mjög hentug með tilliti til samgangna en tengibrautir liggja á tvo vegu frá Kjarnanum, Kjarnagata til suðurs og Naustagata til austurs.“

Að sögn Þorsteins Hlyns Jónssonar, eins eigenda Bergfestu, hafa þessar nýju hugmyndir verið kynntar öllum hagsmunaaðilum; Akureyrarbæ, Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Framkvæmdasýslu ríksins. Málið sé á frumstigi en viðbrögð hafi verið jákvæð.

FYRRI TILLAGA

NÝJA TILLAGAN

Hér er horft austurs frá Davíðshaga að Naustagötu 13. Mynd: Kollgáta

Fréttir Akureyri.net um hugmyndir á reitnum:

Júlí 2024 – Naustagata 13: Verslun, þjónusta og íbúðir

Febrúar 2025 – Naustagata 13: Kynna nýja tillögu að skipulagi

Horft til suðvesturs frá Naustagötu, neðan hringtorgsins við Kjarnagötu. Mynd: Kollgáta

  • Fyrri hugmyndir um uppbyggingu á lóðinni hafa verið kynntar í nafni byggingarfélagsins Kistu en rétt að taka fram, til að fyrirbyggja misskilning, að um sömu aðila er að ræða. Dótturfélagið Kista er í 100% eigu Bergfestu og nýja tillagan er lögð fram í nafni móðurfélagsins.

Gert er ráð fyrir 100 bílastæðum við bygginguna skv. nýrri tillögu fyrir lóðina Naustagötu 13. Úr tillögu Bergfestu.

Í tillögunni segir með þessari mynd: Staðsetning Naustagötu 13 er miðsvæðis milli tveggja fjölmennra hverfa og aðeins eru um 1000 metrar frá nyrstu byggð Naustahverfis að lóðinni, eða u.þ.b. 10 mínútna gangur. Þá er um 600 metra gangur að suðurmörkum Hagahverfis eins og það stendur í dag en framtíðaruppbygging gerir ráð fyrir að Hagahverfi stækki til suðurs á næstu 10-15 árum. Vestan við Kjarnagötu gerir Akureyrarbær síðan ráð fyrir að skipuleggja á næstunni lífsgæðakjarna sem gæti byggst upp á næstu 5-10 árum skv. yfirlýsingum starfshóps um málið.

Loftmynd sem sýnir skipulagsreitina á svæðinu og afstöðu til aðliggjandi íbúðabyggðar. Lóðin sem fjallað er um í fréttinni er sú vestasta, Naustagata 13. Skjáskot af map.is/akureyri.