Fara í efni
Íþróttir

Nú er að duga eða drepast fyrir Þórsara

Halldór Örn Tryggvason og hans menn mæta Gróttu á Seltjarnarnesi í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Þórsarar mæta Gróttumönnum á Seltjarnarnesi í dag í Olísdeild Íslandsmótsins í handbolta. Þeir eru í erfiðri stöðu og verða að vinna leikinn í dag til þess að eiga möguleika á að halda sæti í deildinni. 

Þór er með átta stig í næst neðsta sæti en Grótta sæti ofar með 12 stig. Bæði lið hafa lokið 19 leikjum og eftir leikinn í dag eru tvær umferðir eftir af deildinni. Vinni Þór leikinn í dag og annan hinna tveggja verður liðið áfram í efstu deild, að því gefnu að Grótta vinni hvorugan leikinn í síðustu umferðunum. Liðin yrðu þá jöfn að stigum og Þór með betri útkomu úr innbyrðis leikjum liðanna. 

Grótta á eftir að leika við Fram í Reykjavík og Selfoss á heimavelli. Þórsarar eiga tvo mjög erfiða leiki fyrir höndum í síðustu umferðunum; gegn Stjörnunni í Garðabæ og KA í KA-heimilinu. Sú viðureign gæti orðið áhugaverð verði staðan sú að Þór gæti haldið sæti í deildinni með sigri!

Leikurinn í dag hefst klukkan 16.00 og verður sýndur beint á youtuberás Gróttu. Smellið hér til að horfa á leikinn.

Smellið hér til sjá stöðuna í deildinni.