Nökkvi með þrennu í sannfærandi sigri
Nökkvi Þeyr Þórisson gerði þrennu í fyrsta skipti í efstu deild þegar KA sigraði Stjörnuna 4:2 á sannfærandi hátt í Garðabæ í kvöld. Nökkvi gerði tvö mörk úr víti og eitt með skoti vinstra megin úr teignum, auk þess sem hann lagði upp mark fyrir Hallgrím Mar Steingrímsson.
KA-menn eru þar með komnir með 36 stig í Bestu deildinni og eru þremur á eftir toppliði Breiðabliks, sem mætir Fram á morgun.
- 1:0 Jóhann Árni Gunnarsson skoraði úr víti á 9. mínútu
- 1:1 Nökkvi Þeyr jafnaði á 19. mín. með skoti vinstra megin úr vítateignum eftir magnaða sendingu Sveins Margeirs Haukssonar af hægri kanti.
- 1:2 Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði af stuttu færi á 35. mín. eftir góða sendingu Nökkva Þeys.
- 2:2 Jóhann Árni Gunnarsson skoraði aftur úr víti á 40. mín. Sá vítaspyrnudómur var afar vafasamur, svo ekki sé meira sagt.
- 2:3 Nökkvi Þeyr skoraði úr víti á 42. mín. eftir að Haraldur markvörður Stjörnunnar felldi Elfar Árna Aðalsteinsson; enginn vafi var á að sá úrskurður dómarans var réttur.
- 2:4 Nökkvi Þeyr gerði þriðja mark sitt á 77. mín. Skoraði þá aftur mjög örugglega úr víti eftir að Elfar Árni var sparkaður niður í teignum á nýjan leik.
Leikurinn var mjög skemmtilegur á að horfa og sigur KA-manna sanngjarn. Þeir eru nú aðeins þremur stigum á eftir toppliði Breiðabliks en Kópavogsliðið á leik til góða, sem fyrr segir.
Hallgrímur Mar Steingrímsson sagði við mbl.is í kvöld að á meðan möguleiki væri fyrir hendi myndu KA-menn gera allt sem þeir gætu til þess að narta í hæla Blika og Víkinga og berjast um Íslandsmeistaratitilinn.
„Við erum á fínu skriði og við setjum auðvitað pressu á Breiðablik og Víking. Þó þau eigi leik inni erum við alltaf aðeins að kroppa í þau þarna rétt fyrir aftan,“ sagði Hallgrímur við mbl.is.
„Við eigum líka eftir að spila tvisvar við bæði liðin þannig að það er bullandi séns í þessu ennþá. Það getur hvað sem er gerst. Við ætlum auðvitað að reyna að vinna titilinn á meðan við eigum möguleika á því,“ sagði Hallgrímur.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna
Fjórir umferðir eru eftir að deildinni, áður en úrslitakeppni sex efstu liðanna hefst.
- 19. umferð, sunnudag 28. ágúst: KA – Víkingur
- 20. umferð, sunnudag 4. september: Fram – KA
- 21. umferð, sunnudag 22. september: KA - Breiðablik
- 22. umferð, laugardag 17. september: Valur – KA
Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni.
Að loknum 22 leikjum hefðbundinnar deildarkeppni hefst „framlenging“ þar sem öll liðin mætast einu sinni innbyrðis; hvert spilar sem sagt fimm leiki. Liðin halda stigunum sem þau fengu í leikjunum 22 og að aukaleikjunum loknum liggur fyrir hvaða lið verður Íslandsmeistari og hverjir ná sæti í Evrópukeppni á næsta ári.