Nökkvi líklega seldur til St. Louis í dag
Nökkvi Þeyr Þórisson, framherji belgíska knattspyrnufélagsins Beerschot, verður líklega orðinn leikmaður bandaríska liðsins St. Louis City fyrir lok dags. Lið St. Louis er í efsta sæti Vesturdeildar bandarísku atvinndeildarinnar, MLS.
Belgíski fjölmiðillinn Gazet van Antwerpen greinir frá því í dag að Beerschot hafi frest þar til í kvöld til þess að svara lokatilboði St. Louis sem hafi boðið tæplega eina milljón evra fyrir Nökkva. Ekki nákvæm upphæð skv. fréttinni en gæti verið að andvirði 130 til 140 milljóna króna. Miðillinn segir Beerschot ekki hafa selt leikmann fyrir hærri fjárhæð.
Dalvíkingurinn snjalli, sem sló rækilega í gegn með KA í fyrrasumar, var í kjölfarið seldur til Belgíu og stóð sig vel á nýliðinu keppnistímabili. Beerschot tókst hins vegar ekki að komast upp úr næst efstu deild og því kemur ekki á óvart að framherjinn færi sig um set eins og raunar fleiri leikmenn liðsins hafa gert.