Níu körfuboltamenn semja áfram við Þór
Körfuknattleiksdeild Þórs samdi í gærkvöldi við níu leikmenn sem munu taka slaginn áfram með liðinu í Domino´s deildinni næsta vetur.
Sjö þeirra komu upp úr yngra flokki starfinu hjá Þórven tveir koma úr röðum Tindastóls; Hlynur Freyr Einarsson, sem gekk til liðs við Þór síðastliðið haust, og Ragnar Ágústsson, sem á nú að baki þrjú tímabil með liðinu.
Allir hafa þessir leikmenn komið eitthvað við sögu með meistaraflokki. „Þetta eru sannarlega ánægjuleg tíðindi og verður gaman að fylgjast með þessum efnilegu leikmönnum í framtíðinni og óhætt að segja að framtíðin sé björt hjá körfuknattleiksliði Þórs,“ segir á heimasíðu Þórs.
Þeir sem undirrituðu samning núna eru þessir:
- Júlíus Orri Ágústsson, 19 ára bakvörður, leikstjórnandi og fyrirliði.
- Andri Már Jóhannesson, 19 ára framherji.
- Ólafur Snær Eyjólfsson, 17 ára bakvörður.
- Páll Nóel Hjálmarsson, 18 ára bakvörður.
- Smári Jónsson, 20 ára bakvörður.
- Kolbeinn Fannar Gíslason, 19 ára framherji.
- Ragnar Ágústsson, 19 ára framherji.
- Hlynur Freyr Einarsson, 23 ára framherji.
- Arnar Þór Stefánsson 20 ára bakvörður.
Hjálmar Pálsson formaður körfuknattleiksdeildar undirritaði samningana fyrir hönd Þórs. Hér er hann með Júlíusi Orra Ágústssyni.