Ná stelpurnar að vinna Stjörnuna aftur?
Þór/KA fær Stjörnuna í heimsókn í dag í Bestu deild kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Viðureign liðanna hefst klukkan 16.00 á Þórsvellinum.
Leikurinn er í 10. umferð og þar með hefst síðari hluti hinnar hefðbundnu deildarkeppni. Að 18 umferðum loknum verður deildinni svo skipt í tvennt; sex efstu liðin mætast, halda stigunum, og eftir þessa fimm viðbótarleiki hvers liðs fæst úr því skorið hver verður Íslandsmeistari. Þetta var fyrst reynt í efstu deild karla í fyrra og fyrirkomulagið er nú tekið upp í Bestu deild kvenna og Lengjudeild karla, næstu efstu deild Íslandsmótsins.
Þór/KA sótti Stjörnuna heim í fyrstu umferð deildarinnar í vor og Sandra María Jessen gerði þá eina markið í 1:0 sigri Stelpnanna okkar. Sandra verður fjarri góðu gamni í dag og næstu tvo mánuði, eins og Akureyri.net hefur áður greint frá, eftir að hún handleggsbrotnaði í síðasta leik, sigrinum á Tindastóli í vikunni sem leið.
Fyrir leikinn í dag er Þór/KA í 4. sæti deildarinnar með 15 stig. Þess má geta að liðið fékk 17 stig í deildinni fyrrasumar.