Fara í efni
Íþróttir

Hvað þarf að gerast til að KA nái 6. sæti?

Ásgeir Sigurgeirsson gerir sigurmark KA gegn Stjörnunni á laugardaginn og hélt þar með lífi í von KA-manna um að hreppa sjötta sæti Bestu deildarinnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA mætir FH í Hafnarfirði á morgun í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leiknum var frestað fyrr í sumar og næsta sunnudag er svo síðasta umferð deildarinnar á dagskrá; síðustu sex leikirnir áður en deildinni verður skipt í tvennt.

Staðan er þannig að til að KA verði í hópi þeirra sex efstu verður liðið að vinna tvo síðustu leikina – gegn FH á morgun og gegn Fylki í Reykjavík á sunnudag en það er reyndar ekki nóg – en þar sem KR vann Fylki í vikunni verða KA-menn að auki að treysta á að KR-ingar tapi fyrir ÍBV í Vestmannaeyjum á sunnudaginn.

Segja má að Stjarnan sé örugg með sæti í hópi sex efstu vegna mjög góðrar markatölu; liðið hefur skorað 17 mörkum meira en það hefur fengið á sig í sumar.

Staða liðanna um miðjan deild er þessi:

  • 4. Stjarnan 21 leikur – 31 stig (+17)
  • 5. FH  20 leikir – 31 stig (-2)
  • 6. KR 21 leikur – 31 stig (-7) 
    _ _ _
  • 7. HK 21 leikur – 25 stig (-8)
    HK á ekki möguleika á sjötta sætinu þar sem liðið á aðeins einn leik eftir og kemst mest í 28 stig.
  • 8. KA 20 leikir – 25 stig (-11)

Liðin eiga þessa leiki eftir:

  • FH - KA
  • Fylkir - KA
    _ _ _
  • Stjarnan - Keflavík
    _ _ _
  • FH - KA
  • Breiðablik - FH
    _ _ _
  • ÍBV - KR
    _ _ _

Að loknum 22 leikjum halda sex efstu áfram baráttu um Íslandsmeistaratitil og Evrópusæti og sex þau neðri mætast einnig í einfaldri umferð, þar sem tvö neðstu falla þegar upp er staðið.