Fara í efni
Íþróttir

Mjög umdeilt mark FH en KA náði í eitt stig

Sveinn Margeir Hauksson lék mjög vel í Kaplakrika í kvöld og Hallgrímur Mar, á innfelldu myndinni, fékk vítaspyrnu sem hann skoraði úr af miklu öryggi. Hér eru þeir í bikarsigrinum á Val fyrir nokkrum dögum. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA sótti eitt stig til Hafnarfjarðar í kvöld þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við FH í Bestu deildinni í knattspyrnu. Úlfur Ágúst Björnsson skoraði fyrir FH eftir tæpan hálftíma en Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði fyrir KA 10 mínútum fyrir leikslok.

Mark FH-inga var mjög umdeilt, svo vægt sé til orða tekið; Úlfur skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu en einn samherja hans var greinilega í rangstöðu innan markteigs, rétt fyrir  framan Steinþór Má markvörð KA. Dómarinn mun hafa úrskurðað á þann veg að FH-ingurinn hafi ekki haft áhrif eða truflað Steinþór. Óskiljanleg ákvörðun. 

Vítaspyrnan sem KA fékk var dæmd á markvörð FH, Daða Frey Arnarson. Daníel Hafsteinsson sendi laglega á Hallgrím sem komst inn í teig, vippaði yfir markvörðinn sem kom á fullri ferð á móti honum og rakst harkalega á KA-manninn. Dómarinn hikaði ekki heldur dæmdi víti, sem var hárrétt ákvörðun, og Hallgrímur skoraði af miklu öryggi.

Fyrri hálfleikur var í daufari kantinum, FH-ingar skoruðu þó sem fyrr segir og Viðar Örn Kjartansson KA-maður fékk dauðafæri undir lok hálfleiksins en Sindri Kristinn FH-ingur varð slakt skot auðveldlega.

Seinni hálfleikurinn byrjaði rólega en síðan færðist heldur betur fjör í leikinn. FH-ingar ógnuðu marki gestanna nokkrum sinnum og einu sinni small boltinn í þverslá KA-marksins. Hinum megin komst Hallgrímur Mar í mjög gott skotfæri en nýtti ekki. Hann fékk svo vítaspyrnu eins og áður kom fram og eftir jöfnunarmarkið fengu bæði lið tækifæri til að skora. Jafntefli þó sanngjörn niðurstaða.

Sáttur með stigið

„Já, ég er sátt­ur með stigið. Mér fannst við mæta gríðarlega flottu FH-liði sem er búið að standa sig rosa­lega vel. Við lend­um und­ir og kom­um til baka svo ég er bara mjög ánægður með stigið. Bæði lið sköpuðu tvö eða þrjú góð færi fyr­ir utan mörk­in svo ég hugsa að jafn­tefli sé bara sann­gjörn niðurstaða,“ sagði Hallgrímur Jónasson þjálfari KA við mbl.is eftir leikinn.

„Ef ég hefði getað valið hvernig síðustu 20 mín­út­urn­ar yrðu, þá vildi ég op­inn leik. Eina leiðin fyr­ir okk­ur til að koma til baka var að skora. Ef þeir hefðu skorað annað mark leiks­ins hefði þetta vissu­lega orðið erfiðara en við skoruðum það og þá opnuðu þeir sig aðeins. Þá feng­um við aðeins fleiri færi og þeir sem komu inn á af bekkn­um hjá okk­ur höfðu góð áhrif á leik­inn. Hóp­ur­inn er sterk­ur og er að verða enn sterk­ari, trú­in er að styrkj­ast og það er það sem við höf­um gert rosa­lega vel síðustu mánuði,“ sagði Hallgrímur.

Eftir leikinn er KA í 10. sæti deildarinnar með 12 stig að loknum 13 leikjum, stigi fyrir ofan Vestra sem er í næst neðsta sæti. Fylkir er neðstur með átta stig.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna